Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég vil minna á það að í 1. umr. um þetta mál tók ég sérstaklega utan um það að ég hefði mikinn áhuga á, ef hægt væri, að ná sátt í nefndinni. Ég held að mjög fljótlega í umræðu um þetta mál hafi verið ljóst að Píratar voru ekki að leita að neinni sátt um þetta mál. Þeir eru á móti frumvarpinu eins og það kemur fram núna og eins og það hefur komið fram í öll hin skiptin áður. Það hefur verið mjög skýrt og ég get alveg borið virðingu fyrir því. Við þurfum í þessum sal ekkert alltaf að vera sammála um allt, það er bara eðli stjórnmálanna, en mér finnst mikilvægt að við séum sanngjörn og málefnaleg í umfjöllun okkar um þau mál sem hér eru til umræðu.

Þá vil ég benda á, eins og öllum má vera kunnugt um, að þetta frumvarp er að koma fram í fimmta skipti. Það hefur tekið töluverðum breytingum, einmitt í ljósi þeirra athugasemda sem hafa komið inn, þeirra ábendinga sem hafa komið frá umsagnaraðilum og áherslum frá stjórnarflokkum. Aftur á móti hefur umræðan um það hvort frumvarpið standist stjórnarskrá aldrei komið fram fyrr en núna, í fimmta skipti sem það kemur fram. Hv. þingmaður segi hér: Já, Píratar gerðu kröfu um að fá óháðan aðila til að fjalla um það hvort frumvarpið samræmdist stjórnarskránni. Það er alveg rétt að við í meiri hlutanum hyggjumst ekki óska eftir slíku og samþykkjum það ekki. Við teljum það vera tafaleik í þessu máli því að við teljum alveg ljóst að þetta frumvarp er í engri andstöðu við stjórnarskrá Íslands, enda værum við þá að rjúfa okkar eið og við værum þá að vantreysta öllum þeim ráðgjöfum og embættismönnum sem að þessu máli hafa komið. Ég vil líka bara minna á að við fengum sérstaklega Trausta Fannar Valsson til okkar inn í nefndina til að ræða þetta ákvæði og það er fjöldi lögfræðinga og fjöldi faglegra aðila sem hefur komið með umsagnir sínar um þetta mál. Umræðan um að þetta standist ekki stjórnarskrá kemur fram núna á síðustu metrunum og ég tek bara ekki undir þau sjónarmið.