Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:55]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég horfi á þessi mál út frá þeim lögum sem gilda í dag og ólíkt kannski því sem hv. þingmaður heldur þá er ég ekki talsmaður þess að það séu hér bara opin landamæri. Hins vegar er í lögum um útlendinga, en þar er fjallað um flóttamenn og alþjóðlega vernd, skilgreint vel í 37. gr. og 38. gr. hvað eru flóttamenn, bæði það sem við köllum hælisleitendur eða umsækjendur um alþjóðlega vernd og hverjir eru flóttamenn. Þessar skilgreiningar koma ekki bara frá okkur, þær koma úr flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Í 38. gr. er talað um hvað þurfi að uppfylla til að viðkomandi sé veitt aðstoð og þar er talað um ýmislegt eins og ofsóknir, pyndingar, dauðarefsingu eða átök. Ef við horfum á tölfræðina yfir hverja við erum að taka á móti og hverjum við erum að hafna þá koma þeir sem við tökum á móti frá stöðum þar sem eru átök eða eitthvað slíkt í gangi. Ef við horfum síðan á hverjum við erum að hafna þá eru það þeir sem uppfylla þetta ekki og við þurfum því miður að segja nei við marga. Við eigum að taka þá ákvörðun og gera það mat út frá þessum lögum og gera það á mannúðlegan og skilvirkan hátt.