Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:00]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Ég held að af tvennu illu séu núgildandi lög betri en þau lög sem yrðu til eftir samþykki þessa frumvarps. Það er tvennt sem þarf að laga varðandi núverandi löggjöf. Annars vegar það að það eru reglugerðarákvæði sem var breytt eftir að lögin voru sett sem eru sums staðar of þröngt skilgreind, sérstaklega það sem snýr að börnum og slíku. Það er eitt. Í öðru lagi þarf að vinna í skilvirkni og hún lagast ekki með því að setja enn fleiri og flóknari reglur eins og verið er að gera með þessu frumvarpi, heldur með því að ráðast á vandann. Vandinn er ekki sá að afgreiða fleiri umsóknir. Við sáum bara hvað allt í einu var hægt að afgreiða umsóknirnar frá Úkraínu hratt. Það var hægt að setja upp þjónustumiðstöð, það var hægt að gera hluti sem höfðu ekki verið gerðir áður. Við þurfum einfaldlega að vinna betur úr þessu. Kannski þurfum við að fjölga fólki hjá Útlendingastofnun, ég veit það ekki. Ég held að það sé frekar að ráðast á vandann þar sem hann er og að á meðan verið er að gera það þá sé, eins og spurt var um hér áðan, leitað breiðrar sáttar allra flokka eða sem flestra flokka um það hvað eigi að gera í þessum málum. Ég trúi því að það sé enn hægt ef viljinn væri fyrir hendi en stjórnarþingmenn eru í svo mikilli blindgötu að klára þetta, alveg sama hvort það er rétt, hvort það er lögbrot eða stjórnarskrárbrot. Það á bara að klára þetta. Það má ekki semja. Það má ekki finna leiðir út úr vandanum.