Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:22]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er von að hv. þingmaður hafi ekki áttað sig á því vegna þess að hann kom inn í miðja ræðuna. Ég talaði um það í upphafi að við höfum talið núverandi lög að mörgu leyti vera góð. Það vantaði hins vegar á skýrleika og okkur hefur fundist, eins og meiri hluta þingheims á sínum tíma, að framkvæmd laganna væri ekki í takti við þann vilja sem þingmenn stóðu í meiningu um þegar þeir sömdu þessi lög. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég talaði um efnahagslega flóttamenn þegar ég var að vitna í Halldór Laxness, en engu að síður var það fólk neytt vegna staðhátta til að flýja heimkynni sín, yfirgefa ættjörð sína yfir opið haf með lítil börn og ekki komust allir á leiðarenda. Þess þá heldur þurfum við nú að sýna þeim virðingu og mannúð sem koma bara vegna enn meiri lífsógnar heldur en þess seigdrepandi sultar sem hér ríkti. Við það að hlusta á ræður hér í dag og í gær hefur mér fundist að menn hafi á köflum gert lítið úr því að fólk hrökklist að heiman vegna efnahagslegra þátta. Ég er bara alls ekki sammála því. Ég held að það sé innbyggt í okkur flest að við viljum lifa betra lífi og búa börnunum okkar öryggi. Ég held að við eigum ekkert að greina þarna á milli. Við eigum hins vegar að hafa skýr lög og reglur en þau eiga að byggja á mannúð og sanngirni.