Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:27]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka það að við í Samfylkingunni viljum taka útgangspunkt í núverandi lögum, nálgast breytingar og skýra þau lög í þverpólitískri sátt. Annars leiðist mér óttalega mikið þessi áhersla á orðið skilvirkni. Það hljómar svona pínu eins og það sé verið að fara að framleiða vélarhluta eða bíla. Getum við notað virðingu og sanngirni í staðinn? Við gætum samt hugsanlega dottið niður á sömu niðurstöðu. Þar fyrir utan ætla ég ekki að elta ólar við þessar tölur um einstaklinga frá mismunandi löndum. Það er einfaldlega þannig að kærunefnd Útlendingastofnunar hefur úrskurðað að aðilar frá Venesúela hafi rétt á að koma hingað og byggja það á því að Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur sagt að þetta fólk búi við þær aðstæður að það eigi ekki að vísa því til baka. Við erum að glíma við styrjöld hinum megin við Atlantshafið, austan megin. Þar er auðvitað erfitt að setja reglur þegar fólk þarf á nokkrum klukkustundum að flýja eldflaugaárásir, styrjöld, hernað og skotárásir. Þá höfum við Íslendingar brugðist eins við og við gerðum fyrir 50 árum þegar við buðum alla Eyjamenn velkomna upp á land og skutum yfir þá skjólshúsi. (Gripið fram í.)Við getum enn þá og alltaf búist við aðstæðum í heiminum þar sem við þurfum að víkja frá svona almennum reglum sem við höfum sett okkur, og það gerðum við í þessu tilfelli. En ég ítreka: Samfylkingin vill gera breytingar á núverandi lögum með það fyrir augum að framkvæmdin verði meira í samræmi við það sem þingið taldi sig hafa samþykkt á sínum tíma.