Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann svaraði því ekki hér sem ég spurði hann að, hvort það væri ekki ábyrgðarleysi að horfa ekki til reynslu Norðurlanda þegar kemur að þessum málaflokki. Þau hafa langa og mikla reynslu af þessum málaflokki og hafa verið að læra af þeirri reynslu og hafa horfið frá þeirri stefnu sem var í gildi. Af því að hv. þingmaður minntist á Svíþjóð þá sagði fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar ekki fyrir svo löngu síðan að aukna afbrotatíðni í Svíþjóð mætti rekja til mistaka hinnar pólitísku stefnu í útlendingamálum. Ég held að það sé alveg ljóst að það er afar mikilvægt að horfa til reynslu Norðurlandanna.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Fyrst hann vill ekki horfa í þessa reynslu telur hann þá að við Íslendingar eigum að hafa hér annað regluverk en Norðurlöndin, annað regluverk en Evrópa? Við erum núna með sérreglur sem gera það að verkum að hingað sækja hlutfallslega mun fleiri flóttamenn en á Norðurlöndunum. Regluverkið hér er veikara en á Norðurlöndunum og í Evrópu. Er það stefna Samfylkingarinnar — það væri gott að fá það hér fram, bara já eða nei — að hér eigi að ríkja annað regluverk en á Norðurlöndum og í Evrópu?