Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:36]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir leiðinlegt að þurfa að tyggja það aftur ofan í hv. þingmann að það þýði ekkert að tala um Norðurlöndin eins og þau reki sams konar stefnu þegar kemur að þessum málum. Það þýðir heldur ekkert að líta þannig á að þau séu að glíma við sams konar aðstæður. Við erum og eigum að læra af hinum Norðurlöndunum. Við getum lært margt gott af því sem þau hafa gert gott en við eigum auðvitað líka að læra af mistökum þeirra. Ég held að það liggi bara í hlutarins eðli og ég held að við getum alveg fetað einhvern meðalveg í þeim efnum án þess kannski að taka hrátt upp ströngustu löggjöf þess Norðurlandanna sem vill ganga harðast fram.

Ég held að ferð hv. allsherjar- og menntamálanefndar til Norðurlandanna hafi örugglega leitt í ljós mjög marga hluti sem við getum lært af. Það varðar ekki bara þetta regluverk, um hverjir fá að setjast hér að og hverjir ekki, heldur líka hvernig þú ætlar að aðstoða það fólk sem fær að setjast hér að við að aðlagast íslensku samfélagi og gera því kleift að vinna að styrkleikum sínum og auðga íslenskt samfélag. Og núna þegar við erum í miðjum þorra þá er það dæmi um þá gleði sem við höfum fengið frá öllum þeim útlendingum sem hafa flutt hingað síðustu árin hvað matarmenningin okkar hefur batnað mikið, hv. þingmaður.

Ég held að við séum öll sammála um að við getum og eigum að byggja á skýrri löggjöf en hún á að byggjast á mannúð, virðingu og ábyrgð.