Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:57]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Ég þakka þingmanninum fyrir góða spurningu og gott svar. Hvað varðar spurninguna um það hvort stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nái yfir alla jarðarbúa þá blasir við að svo er ekki en ég álít sem svo að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nái í það minnsta yfir alla þá sem á landinu dvelja, hverrar þjóðar sem þeir eru, hvers kyns sem þeir eru, hverra skoðana sem þeir eru, að þetta sé það mikilvægt að það sé á hreinu að þetta nær yfir allt fólk sem hér dvelur.

Hvað varðar jóladagatal RÚV þá er ekki mitt að dæma um ágæti framgöngu RÚV í því máli en við verðum að horfa á hvernig þjóðfélagsumræðan speglast okkur í því sem kemur fram. Hvort sem það er á RÚV eða í hvaða fjölmiðli svo sem það er eða hvar svo sem sú umræða fer fram er það ákveðinn spegill á það sem fer fram í landinu og það sem skiptir okkur og almenning máli. Mér þykir sjálfsagt að horfa til þess hvernig almenningur bregst við. Það er bara okkar hlutverk sem stjórnmálamanna í lýðræðisþjóðfélagi að horfa til almennings. Þaðan sækjum við valdið, ekki satt?