Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:00]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir annað andsvarið. Hvaða takmörk eru fyrir því hverjum við getum tekið við? Ég spyr á móti eins og ég spurði í ræðunni: Hvað getum við slökkt marga elda? Hvenær erum við búin að sinna of mörgum fótbrotum? Mögulega eru einhver takmörk en það er ekki það sem málið á að snúast um. Málið á að snúast um hvernig við getum komið þessum hóp sem hingað leitar með sem skilvirkustum hætti inn í þjóðfélagið þannig að kerfið nýtist fleirum, þannig að við séum ekki, eins og kerfið er núna, að búa til ótal vandamál með því að fólk geti ekki sinnt vinnu, með því að fólk fái ekki þjónustu, með því að fólk bíði mánuðum og árum saman í óvissu um afdrif sín. Það blasir alveg við að það þarf að gera breytingar í málaflokknum. Það blasir við að við þurfum að leysa vandamál. Það frumvarp sem hér er til umræðu leysir engin vandamál, það bara býr þau til, það fjölgar þeim. Það er ekki það sem við eigum að gera hérna eða það tel ég ekki vera mitt hlutverk. Mitt hlutverk er að fækka vandamálunum. Ég vona að fleiri hv. þingmenn séu sama sinnis, að okkar hlutverk sé að fækka vandamálum, ekki fjölga þeim.