Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég vil byrja á því að koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi varðandi EES-borgara sem hingað hafa komið. Grundvallarforsendur EES-kerfisins eru allt aðrar en verndarkerfisins og það er ekki hægt að blanda því saman. Hv. þingmaður talaði um að við værum að bjóða hér Úkraínumenn sérstaklega velkomna og ég fagna því. En það er alveg ljóst að við getum ekki boðið Úkraínumenn velkomna ef við höfum ekki húsnæði, ef félagslega kerfið getur ekki staðið undir því og skólakerfið. Ef sveitarfélög eins og Reykjanesbær neita að taka á móti fleirum þá getum við ekki þvingað þau til þess vegna þess að þau hafa ekki innviði og aðstöðu til. Þetta gildir jafnt um Úkraínumenn sem og flóttamenn frá Venesúela. Við erum bara að nálgast þann tímapunkt og aðstæður að sveitarfélögin ráði ekki við málið.

Þá segi ég bara: Við getum ekki tekið á móti fleirum og það er mitt svar. Ég get ekki nefnt einhverja ákveðna tölu, að við eigum bara að taka á móti 2.500. Það get ég ekki sagt en segi hér og nú að við getum ekki tekið á móti þeim sem við getum ekki veitt þessa þjónustu. Þess vegna erum við hér að koma fram með þetta frumvarp, sem er skref í rétta átt til þess að málsmeðferðin verði skilvirkari og óvissu verði eytt, þannig að þeir sem eiga ekki heima í verndarkerfinu séu þá ekki að tefja málsmeðferð og annað slíkt þegar þeir eiga ekki rétt á að vera í kerfinu, á sama tíma og hér eru einstaklingar sem þurfa á vernd að halda.

Samfélagið okkar er komið að ákveðnum tímamótum hvað þennan málaflokk varðar vegna þess að við erum að fá fréttir af sveitarfélögunum sem segja okkur að þau geti ekki tekið á móti fleirum. (Forseti hringir.) Það hljóta að vera mjög skýr skilaboð um hvað við getum tekið á móti mörgum, hv. þingmaður.