Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:25]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem myndi helst bæta skilvirknina er að fækka umsóknum. Því fleiri sem eru í kerfinu þeim mun meira álag verður á kerfinu og óskilvirknin meiri. En með því að opna löggjöfina enn frekar — þú kemur og sækir um vernd á Íslandi, færð húsnæði og framfærslu á meðan þú ert að leita þér að vinnu — hvað haldið þið að það kæmu margir þá? Þetta er besti díll sem ég hef heyrt. Þessi skilaboð mættum við aldrei senda. Þá fyrst yrði óskilvirkni og hér myndi flæða inn fólk með tilhæfulausar umsóknir og það er engum til gagns. Ég vara mjög við því að fara þá leið.

Ég segi: Ef það vantar vinnuafl þá þurfum við að skoða það þannig að fólk geti komið hingað á eigin vegum og sé ekki á framfærslu hins opinbera og sótt hér um vinnu. Það á ekki heima í verndarkerfinu og þessi breyting fjallar um breytingu á verndarkerfinu.