Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:33]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Andi laganna okkar er mjög skýr um að þetta sé verndarkerfi fyrir þá sem eru í raunverulegri neyð. Svo erum við aðilar að alls kyns reglum sem eru líka í löggjöfinni, eins og Dyflinnarreglugerðinni og fleiru. Því hef ég nú bara fulla trú á Útlendingastofnun og hef ekki séð neitt annað en að þau framfylgi lögum. Þau eru að fara eftir lögum og ég dreg störf þeirra ekki í efa á nokkurn hátt. Þau eru að fara eftir anda laganna og eftir þeim alþjóðaskuldbindingum sem við höfum undirgengist og annað slíkt. Það er enginn vafi á því.

Það sem ég vil kannski draga fram hér er að að einhverju leyti er íslensk löggjöf, og ég hélt því fram í ræðu minni, linari en í öllum okkar nágrannaríkjum. Það verður til þess að það eru fleiri sem sækja hér hlutfallslega um vernd en annars staðar. Þetta er að einhverju leyti lagað í þessu frumvarpi með aukinni skilvirkni en ég held að það séu efni til þess að ganga lengra.