Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:37]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hugsi yfir því hvort ég eigi að þakka hv. þingmanni fyrir þessa útúrsnúninga. Ég vil bara byrja á að spyrja: Áttum við sem sagt ekki að bjóða fólki frá Úkraínu hingað? Þykir hv. þingmanni það eitthvað slæmt, áttum við ekki að gera það svo að að við hefðum getað tekið betur á móti hinum? Mér fannst hv. þingmaður fara mjög frjálslega með það að það ríki stríð í öðrum löndum þegar við erum með stríð eins og í Úkraínu í gangi. Önnur Evrópuríki taka ekki á móti eins mörgum frá þeim löndum sem hér eru nefnd og það eru til skýrslur og úttektir á ástandinu í umræddum löndum sem lýsa þessu fólki meira sem efnahagslegum flóttamönnum en að það sé að flýja stríð þar sem líf og limir eru í hættu. Okkar löggjöf útilokar það ekki að sumir frá þessum löndum séu að flýja af því að líf og limir séu í hættu, en þá á að taka fyrir einstaklinginn en ekki hópinn í heild sinni. Það þarf nú að vera algerlega á hreinu.

Ég vil bara segja það að kerfið hér á landi var eiginlega komið að þolmörkum þegar við vorum með rúmlega 890 umsóknir og ég tel að þær séu nú komnar langt upp fyrir það. Það sýnir sig í mörgum árekstrum sem eru að verða núna, t.d. þegar verið er að bjóða hælisleitendum upp á það að fara inn í mjög lítil samfélög þar sem almenningssamgöngur eru ekki, heilbrigðisþjónusta er ekki, ekki mikið um verslun og samfélögin eru ekki tilbúin til að taka á móti hælisleitendum og veita þá þjónustu sem þeir þurfa. Þetta er ekki góð þróun og getur ekki verið gott fyrir neinn.