Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:55]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er alveg ágætissamstaða um að það þarf að ná fram breytingum á þessu kerfi. Það er engin spurning. Við vitum að kerfið er ekki að virka eins og framkvæmdin er núna. Við vitum líka að ítrekað hefur Útlendingastofnun orðið afturreka með mál. Ekkert af því sem í þessu frumvarpi er leysir þau vandamál með öðrum hætti en að útiloka marga þá þætti sem hafa valdið því að mál falla niður frá því að vera ástæða endurupptöku.

Það eru líka ótrúlega mörg dæmi í umsögnum þar sem hrópað er á samráð frá hagsmunaaðilum. Sér þingmaðurinn ástæðu til þess að skoða hvort ekki væri nær að taka upp samráð við hagsmunaaðila, við aðilana sem þekkja þessi mál, sem þekkja vandamálið? Það er ekki verið að segja þeim neitt nýtt með því að rekja fyrir Amnesty eða Rauða krossinum hver vandamálin eru. Þessir aðilar vita það alveg. Þessir aðilar þekkja líka mögulega hvaða lausnir eru fyrir hendi. Það er ekki eins og það sé eitthvert vandamál að hafa samráð, samráði geta fylgt mjög góðar og skilvirkar lausnir. Þannig gætu stjórnarliðar fengið þá skilvirkni sem er verið að óska eftir í frumvarpinu en skilvirknin má ekki vera á kostnað mannréttinda fólks í leit að vernd.