Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:57]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ég er ekki á þeirri skoðun að þetta frumvarp brjóti á mannréttindum fólks. Það liggur alveg fyrir, bara svo að það sé sagt. Varðandi samráðið: Já, ég er nú samvinnumaður í eðli mínu, það liggur alveg fyrir. Þetta frumvarp hefur fengið gríðarlega góða umfjöllun innan allsherjar- og menntamálanefndar. Ég er svo sem ekki búinn að vera lengi á þingi en það er búið að ræða það fram og til baka sem ég tel og hef minnst á í minni ræðu að sé vel. Við höfum fengið alla þá aðila sem veitt hafa umsögn um málið til okkar, suma hverja oftar en einu sinni og ég held oftar en tvisvar. Það liggur alveg fyrir að málið er virkilega vel reifað.

Það kom líka fram í ræðu minni að ég tel að hér sé ekki um einhvers konar heildstæða lausn á málaflokknum að ræða, alls ekki. Ég veit að við munum þurfa að ræða þennan málaflokk og án efa breyta lögum og reglum um hann á næstu misserum og árum. Ég held aftur á móti að búið sé að vinna málið mjög vel og ítarlega. Nú liggur fyrir að málið verður líka tekið inn í nefnd á milli 2. og 3. umr. sem ég held að sé vel. Það sýnir bara metnað að klára að fara yfir þau mál sem út af standa. Ég hlakka til þeirrar vinnu og vonandi verður hægt að klára frumvarpið í kjölfarið.