153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þær upplýsingar sem ég var að vísa til eru opinberar upplýsingar, þær fást annars vegar hjá Útlendingastofnun, íslenskum stjórnvöldum og sænskum stjórnvöldum. Ef maður fer og rýnir aðeins í þessar tölur þá eru þeir umsækjendur um vernd sem koma frá Úkraínu víða í löndum Evrópu ekki taldir með öðrum umsækjendum. Það getur verið að það sé ástæða þess að hv. þingmaður ruglaðist aðeins á tölunum. Ég er ekki að segja að þetta hafi verið með vilja gert en ég taldi mikilvægt að leiðrétta þennan misskilning hér.

Tilhæfulausar umsóknir á Íslandi eru t.d. þær sem eru endurteknar eða þær sem metnar eru sem tilhæfulausar. Þær voru níu á síðasta ári samkvæmt svari frá íslenskum stjórnvöldum, frá hæstv. dómsmálaráðherra — níu af 4.500 umsóknum. (Forseti hringir.) Það bendir ekki til þess að það þurfi að fara í einhverjar aðgerðir, líka þær sem stjórnarliðar eru hér að mæla með að stjórnvöld fari í, né heldur tæki frumvarpið á einhverjum slíkum vanda ef svo væri.