Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir býsna góða ræðu og yfirferð. Það sem einkenndi hans innlegg hér var kannski þessi mannkærleikur og mannúð sem stendur upp úr. Nú hefur hv. þingmaður getið sér gott orð fyrir hagsmunabaráttu í þágu þeirra sem glíma við geðrænar áskoranir og mig langar aðeins að vísa til orða sem eru í umsögn embættis landlæknis varðandi niðurfellingu heilbrigðisþjónustu, með leyfi forseta:

„Af frumvarpinu verður ráðið að þrátt fyrir undanþáguákvæði geti komið upp sú staða að fólk verði svipt rétti til heilbrigðisþjónustu. Slíkt er óásættanlegt. Þeir sem undir þetta falla geta, rétt eins og aðrir og e.t.v. enn frekar en aðrir, glímt við sjúkdóma og heilsufarsvandamál sem nauðsynlegt er að bregðast við utan téðra tímamarka. Vart þarf að fjölyrða um alvarlegar afleiðingar sem stöðvun heilbrigðisþjónustu, hvort heldur er vegna langvinnra sjúkdóma eða bráðra, getur haft í för með sér, ef ekki er brugðist við því sem upp kemur.

Embætti landlæknis telur að öll nauðsynleg heilbrigðisþjónusta eigi að vera undan skilin.“

Svo segir:

„Fyrir utan að það er ómannúðlegt að neita einstaklingi um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu getur það boðið heim hættu fyrir aðra ef t.d. einstaklingur er haldinn smitsjúkdómi eða geðröskun sem hugsanlega eru ekki metnir alvarlegir við fyrstu sýn.“

Ég velti fyrir mér, af því að það á að vera bara allra nauðsynlegasta heilbrigðisþjónusta sem liggur fyrir þegar veitt er undanþága, hvort hv. þingmaður geti tekið undir þessi varnaðarorð embættis landlæknis og kannski sérstaklega með tilliti til þeirrar stöðu sem umsækjendur um vernd eru í, hvernig þeir geti í rauninni tímabundið átt við geðrænar áskoranir þótt það sé ekki klínískt mat einhvers sem mögulega fær viðkomandi til sín til lengri meðferðar.