Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að ég geti fyllilega tekið undir það sem kom fram í máli hv. þingmanns varðandi það að það virðist vera sem það verði ákveðin rökvilla einmitt þarna þar sem talað er um, og það er meira að segja megintilgangur frumvarpsins, að auka á skilvirkni, að fæla fólk frá því að ílengjast með því að fella niður þjónustuna, en svo er hin höndin að segja: Við fellum auðvitað ekki niður þjónustuna af því að hér lendir enginn á götunni. Ég held að það hafi einungis verið hv. þm. Birgir Þórarinsson sem viðurkenndi að aðrir lenda á götunni, sem ekki eru börn, barnafólk eða fólk með fötlun eða langvinna sjúkdóma. Það sama má segja um heilbrigðisþjónustuna. En Læknafélagið ályktaði líka og sagði að með því að veita ekki sjúkum móttöku, hvert sem leitað er, þá væri í raun verið að brjóta ákveðnar siðareglur lækna sem má finna í Helsinki-yfirlýsingunni.

Maður veltir líka fyrir sér: Hvað ef aðstæður breytast og við höfum neitað einstaklingi um læknisþjónustu lengi, eða einhvers konar heilbrigðisþjónustu? Auðvitað erum við að fást við þetta fyrir þá íslensku ríkisborgara sem eru að kljást við ýmis mein og búa hér og hafa greitt sína skatta og skyldur allan tímann. En maður veltir fyrir sér, þegar tekin er ákvörðun um að binda þetta í lög, hvort slíkt geti hreinlega staðist stjórnarskrá, af því að það er jú svo að stjórnarskráin nær yfir þá sem eru hér, ekki bara þá sem hafa íslenskan ríkisborgararétt, eins og einhver þingmaðurinn hélt fram á dögunum.