Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:43]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi vart mínum eigin eyrum. Þó að stundum séum við sammála, ég og hv. þingmenn Miðflokksins, um hitt og þetta þá er það gjarnan með ákveðnum útúrsnúningum en ég er bara hjartanlega sammála hv. þingmanni í þetta skipti að öllu leyti. Þetta er einmitt stefna margra Vesturlanda og þetta er klárlega stefna Sjálfstæðisflokksins og einmitt, eins og hv. þingmaður benti á, margra hægri manna, að við viljum bara fá hingað besta fólk í heiminum sem er bara rosalega menntað og getur komið hingað og auðgað okkar samfélag með sinni sérþekkingu, ekki bara með sinni mennsku og tilvist. Það er þessi stefna sem er að mínu mati alveg kolröng.

Í þessu samhengi langar mig að benda á annað vandamál í okkar kerfi sem er t.d. það að nú fær flóttafólk frá Úkraínu ekki stöðu flóttamanns eins og það á rétt á samkvæmt alþjóðalögum, heldur fær það — vegna þessarar stefnu og vegna þeirrar stefnu að við viljum ekki hafa flóttafólk hérna, og helst bara tímabundið og það drífi sig heim sem allra fyrst, þá fær flóttafólk frá Úkraínu ekki dvalarleyfi fyrir flóttamann. Dvalarleyfi fyrir flóttamann fylgir óbundið atvinnuleyfi. Langflestir flóttamenn sem ég þekki á Íslandi hafa farið í sjálfstæðan rekstur. Það er mjög algengt að fólk, sérstaklega frá Miðausturlöndum, sé mjög upptekið af því að geta séð um sig sjálft, standa á eigin fótum. Fyrir þeim þýðir það gjarnan að vera ekki að vinna fyrir einhvern annan. Þetta fólk er mjög duglegt að opna hárgreiðslustofur, saumastofur, veitingahús. Þetta sjáum við hérna. Þetta fær fólk með stöðu flóttamanns. Með því sem kallað er dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, mannúðarleyfi, sem hljómar ægilega vel, fylgir ekkert atvinnuleyf. Þar erum við að bjóða upp á misnotkun. Þar erum við að bjóða upp á það að fólki í viðkvæmri stöðu sé boðin einhver vinna á einhverjum launum sem standast ekki samninga (Forseti hringir.) og fær jafnvel synjun um vinnuleyfi fyrir vikið.

Þetta kerfi sem við höfum byggt upp og ég er bara hjartanlega sammála hv. þingmanni um að þetta er kolvitlaus átt. Við eigum ekki að vera að einbeita okkur að þessu. (Forseti hringir.) Við eigum í rauninni að bjóða allt það fólk velkomið sem vill koma hingað. Það er þannig sem við byggjum upp gott samfélag. Við eigum að treysta okkar innviði, tryggja að allir einstaklingar hafi tækifæri til inngildingar og tækifæri til að byggja sér upp líf hér.