Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar aðeins að fara til orða hv. þingmanns um sýndarmennsku og sýndarsamráð og vísa þá einmitt í þessa umræðu um að ekkert sé komið til móts við þann fjölda umsagna sem liggur fyrir frá helstu hagaðilum. Við erum að tala um Þroskahjálp, sem gætir hagsmuna fólks með fötlun, við erum að tala um Barnaheill, Rauða krossinn, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindastofnun Íslands, Læknafélag Íslands, embætti landlæknis o.s.frv. Nú hefur þetta frumvarp verið í býsna mikilli vinnu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Við höfum haldið fjölda funda og ekki er hægt að kvarta yfir því að ekki hafi verið komið til móts við okkur varðandi gestakomur því að við höfum kallað alla umsagnaraðila inn. Það má halda því fram að umræðan hafi verið býsna góð, öfugt við það sem stundum hefur verið þegar frumvarpi af þessum toga er skutlað inn eftir lokafrest, þ.e. jafnvel í apríl eða maí, og ætlast til að það sé klárað fyrir lok vorþings.

Þá veltir maður fyrir sér því sem átti sér stað við upphaf 2. umr. í gær þegar tilkynnt var að stjórnarþingmaður óskaði eftir að málið kæmi til nefndar milli 2. og 3. umr. til þess að einstaka atriði verði rannsökuð. Stjórnarþingmaðurinn gat ekki tilgreint hvaða atriði það væru, bara einhver atriði. Finnst hv. þingmanni þetta vera traustvekjandi, trúverðugt? Er þetta hluti af þessari sýndarmennsku sem hv. þingmaður var mögulega að tala um?