Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:10]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef eins og aðrir þingmenn hlýtt á margar þeirra ræðna sem fluttar hafa verið við 2. umr. um frumvarpið sem hér um ræðir. Ég ætla ekki að halda því fram að ég sé sérfræðingur um þessi málefni og ekki ætla ég heldur að reyna að halda því fram að ræða mín hér muni bæta einhverjum nýjum efnisatriðum inn í þessa umræðu sem um margt hefur verið góð. En ég vil byrja á því að vísa í ræður og þingskjöl fulltrúa Samfylkingarinnar í allsherjar- og menntamálanefnd, hv. þingkonu Helgu Völu Helgadóttur, og ræður hv. þingkonu Dagbjartar Hákonardóttur og hv. þm. Loga Einarssonar sem hér hafa einnig talað fyrir hönd Samfylkingarinnar.

Ég verð að viðurkenna að framlagning þessa frumvarps í fimmta sinn sætir nokkurri undrun, kannski ekki síst vegna þess að ég held að hér sé verið að reyna að selja ákveðna ímynd til ákveðinna kjósendahópa. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn, væntanlega með æstum stuðningi Miðflokksins og kannski Flokks fólksins, ég hef nú reyndar ekki alveg skilið afstöðu þess ágæta flokks til málsins, sé hér að reyna að selja kjósendum þá hugmynd að það eigi að loka landinu og þess vegna sé þetta frábært frumvarp og muni skila stórkostlegum árangri. Framsóknarmenn hef ég varla séð hér í ræðupúlti í þessu máli en það er svo sem ekkert nýtt í því og Vinstrihreyfingin – grænt framboð reynir nú að spila út úr ermi hæstv. forsætisráðherra einhvers konar lokatrompi í málinu án þess að nokkur viti um hvað það snýst eða hvort það breyti einhverju um málið yfir höfuð. Ég get svo sem alveg skilið, þekkjandi innvolsið í þeim ágæta flokki, að þeim líði kannski ekkert sérstaklega vel yfir þessu frumvarpi og séu kannski ekkert sérstaklega ánægð með þau skilaboð sem ítrekað hafa komið frá hæstv. dómsmálaráðherra um stjórnlaust ástand þegar kemur að umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi. Þetta er kannski mjög hraðsoðin lýsing á hinu pólitíska undirlagi þessa frumvarps og þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram.

Við vitum öll að ástandið er ekki stjórnlaust. Það hefur aldrei verið stjórnlaust. Það má alveg halda því fram að á Íslandi geti það ekki einu sinni orðið stjórnlaust af því að landið á engin landamæri við önnur lönd, við erum eyja. Eins og ítrekað hefur komið fram tekur frumvarpið ekki á þeim annmörkum sem við í Samfylkingunni teljum að megi lagfæra í núverandi útlendingalöggjöf. Það breytir heldur engu um það, hafi ég skilið frumvarpið rétt, hverjir fá vernd og hverjir ekki. Þeir þingmenn sem koma hér upp og halda því fram að um miklar umbætur sé að ræða, að því leyti að það verði miklu færri sem fái vernd, fara villu vegar. Það er ekkert öðruvísi. Auðvitað er verið að þrengja ákveðin ákvæði með skammarlegum hætti, samanber 30 daga regluna svokölluðu, og búa til þröskulda og erfiðleika. En í rauninni er þetta að stærstum hluta, eins og ég sé það, ekki efnisleg breyting á framkvæmdinni þegar kemur að mati á alþjóðlegri vernd.

Þegar gerðar eru jafn viðamiklar breytingar á jafn mikilvægri löggjöf og útlendingalögin eru þá man ég ekki til þess að meiri hlutinn, hver sem hann hefur verið, hafi ekki hlustað á neinn einasta umsagnaraðila, á engar ábendingar, athugasemdir eða gagnrýni sem komið hefur frá sérfróðum aðilum, samtökum og þeim sem vinna í þessum geira alla daga ársins. Nægir að nefna Rauða krossinn á Íslandi, Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, Barnaheill, Amnesty, landlækni, Læknafélagið. Hér hafa menn bara farið af stað með pólitískar breytingar og pólitíska orðræðu sem átti að skila ákveðnum árangri, væntanlega pólitískum, út í samfélagið og hafa hreinlega ákveðið fyrir fram að stunda hér óvandaða löggjafarvinnu, svo óvandaða að maður veltir fyrir sér hvort þingmenn meiri hlutans hafi lesið umsagnir um málið eins og þær liggja fyrir á vef Alþingis. Ég hvet alla sem hér eru að hlusta og hafa áhuga á þessum málum til að kynna sér þær umsagnir sem fyrir liggja um frumvarpið sem hér um ræðir. Nei, en meiri hluti Alþingis, meiri hluti nefndarinnar, þarf ekki á því að halda að kynna sér málefnalega gagnrýni, uppbyggilegar ábendingar, eðlilegar athugasemdir og ábendingar um það að hér séu á ferðinni breytingar sem geti leitt af sér mannréttindabrot og í raun hörmungar fyrir einstaklinga.

Svo er það þetta með fjöldann og hið meinta stjórnleysi. Eins og allir vita sem fylgst hafa með fréttum þá er stríð í Evrópu. Stjórn Pútíns í Rússlandi réðst inn í Úkraínu fyrir 11 mánuðum. Það geisar stríð í Evrópu og frá Úkraínu hafa streymt flóttamenn, flóttafólk. Það er kannski ekki úr vegi að minna á að íbúar Úkraínu voru fyrir innrásina 46 milljónir. Ef ég man rétt þá eru a.m.k. 8 milljónir farnar á flótta út fyrir landið og auðvitað er ástandið í landinu ekki gott. Þá veltir maður fyrir sér hvaðan talið um hið meinta stjórnlausa ástand kemur, rétt eins og það að stríð geisi í Evrópu hafi engin áhrif á önnur Evrópulönd. Helmingur þeirra sem leituðu alþjóðlegrar verndar á Íslandi á síðasta ári, rúmlega helmingur, kom frá Úkraínu, að sjálfsögðu. Það var líka vegna þess að önnur Evrópuríki opnuðu dyr sínar fyrir flóttafólki frá Úkraínu og sem betur fer gerðum við það líka. Einnig er mikið rætt um flóttafólk frá Venesúela sem er um fjórðungur þeirra sem komu á síðasta ári til landsins. Nú vill svo til að sá fjöldi byggir á því að kærunefnd útlendingamála úrskurðaði flóttafólki frá Venesúela í hag og á þeim úrskurði hlýtur móttakan að byggja, sú stjórnsýsla og það sem stjórnvöld þurfa að fara eftir.

Ég gef lítið fyrir það tal, sem allt of oft hefur heyrst úr þessum ræðustóli á síðustu sólarhringum, að hér sé við að eiga stjórnlaust og ófyrirséð ástand. Það er ekkert ófyrirséð við flóttamannavandann og það hefur ekki verið það alla þessa öld ef við förum bara rétt aftur til síðustu aldamóta. Það geisar stríð í Evrópu. Rússar réðust inn í Úkraínu. Það hefur geisað stríð í Sýrlandi í meira en tíu ár, borgarastyrjöld. Það eru u.þ.b. 20 ár frá innrásinni í Írak. Það hefur geisað stríð í Afganistan áratugum saman. Án þess að ég ætli að fara of langt út í það bera Evrópuþjóðir líka mjög mikla ábyrgð á því hvernig ástandið er í Írak og Afganistan. Þá er ég ekki byrjuð að tala um Jemen, Eþíópíu, Erítreu, Kongó o.s.frv. Það er ástæða fyrir því að 100 milljónir manna eru á flótta í heiminum og hún er fyrst og fremst stríðsátök, hvort sem það er á milli landa eða borgarastyrjaldir, og síðan afleiðingar slíkra átaka, óöryggi, skortur, matarskortur, engin leið til að ala upp börnin sín í slíku ástandi og sókn fólks eftir friði. Það sem stýrir hinum mikla flóttamannavanda er einfaldlega sókn venjulegs fólks eftir öryggi og friði.

Í lokin ætla ég að koma að því sem lítið hefur verið rætt hér að því að mér finnst — ég ætla að taka það fram að ég hef ekki heyrt allar ræður sem fluttar hafa verið við 1. og 2. umr. um þetta mál — en það er hlutverk Íslands og staða og ábyrgð í þessu samhengi. Við hljótum að axla þá ábyrgð að standa með Úkraínu alla leið, ekki bara á fyrstu dögum stríðsins, ekki bara eftir þrjá mánuði eða sex mánuði eða núna eftir 11 mánuði heldur eins lengi og þarf. Það þýðir að við tökum á móti fólki og veitum því vernd, rétt eins og um náttúruhamfarir væri að ræða. Það er hluti af því að vera sjálfstætt og fullvalda ríki að axla þá ábyrgð og hafa úthaldið til þess. Það kann alveg að reynast þungt á köflum, ég ætla ekki að gera lítið úr því. Það kann að reynast umhendis og flókið. Það væri léttara ef fleiri sveitarfélög hér á landi tækju þátt í því að hýsa flóttafólk, þau sem hér hafa fengið alþjóðlega vernd, miklu léttara meira að segja af því að saman getum við axlað þessa ábyrgð og þessar byrðar. Okkur ber skylda til þess. Það fylgja ekki bara réttindi því að vera sjálfstætt ríki í samfélagi þjóðanna. Því fylgja líka skyldur og þær erum við að axla og okkur ber að gera það. Ég dreg þá ályktun, eftir að hafa hlustað á þessa umræðu hér og kynnt mér málið — auðvitað ekki til fulls, eins og ég tók fram í upphafi, en þó þannig að ég tel mig hafa nokkuð góða yfirsýn yfir það hvað á að reyna að gera í þessu frumvarpi og hvað á ekki að gera — að frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sé verið að selja sem einhvers konar allsherjarlausn við einhverju stjórnlausu ástandi sem er ekki fyrir hendi. En um leið er verið að setja hér inn mjög andstyggilegar breytingar sem farið hefur verið ítarlega yfir í þessari umræðu og aðrir þingmenn en ég hafa gert mjög góð skil. Það mun síðan koma í ljós við atkvæðagreiðslu um þetta mál hvernig landið liggur á hinu háa Alþingi. Ég er nokkuð hrædd um að fyrir þessu frumvarpi sé drjúgur meiri hluti, ég er meira að segja mjög hrædd um það. Það segir ákveðna sögu um pólitíska landslagið á þessu löggjafarþingi. En við skulum sjá hvernig atkvæðagreiðslan fer þegar lokaafgreiðsla fer fram.

Þegar annar svokallaður flóttamannavandi komst í hámæli árið 2015, vegna borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi og stöðugs straums flóttafólks þaðan yfir til Evrópu, voru um það miklar deilur innan Evrópusambandsins hvernig skyldi axla þá ábyrgð og deila henni á milli ríkja. Einn þeirra stjórnmálaleiðtoga sem þá sat undir ámæli vegna síðbúinna viðbragða og fyrir að hafa ekki tekið skýrt af skarið um hvað skyldi gera, Angela Merkel, sagði þegar hún hafði hugsað málið — reyndar var tilefnið ung, grátandi stúlka sem átti að vísa úr landi — með leyfi forseta: „Wir schaffen das.“ Við gætum þýtt það: Við græjum þetta. Það er það sem við þurfum að gera. Við þurfum að græja það að vera sjálfstæð, rík þjóð og axla þá ábyrgð sem því fylgir að vera ríki í samfélagi þjóðanna, taka á móti fólki sem á rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, gera því búsetuna hér eins góða og hægt er, reyna að virkja það algerlega inn í samfélagið, veita því tækifæri til að sækja skóla, stunda vinnu. Á endanum, þó að það geti verið óþægindi, kostnaður, fyrirhöfn, flækjustig til að byrja með, mun þetta samfélag verða sterkara og betra fyrir vikið.