Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:21]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég er sammála þessu með skilvirknina og þunga áherslu meiri hlutans á hana. Í samtölum þeirra og nálgun finnst mér aðeins vanta upp á að byrja á upphafsspurningunni: Næst skilvirknin fram? Ég er ekki sannfærð um það en ég er heldur ekki sannfærð um að skilvirkni sé eina spurningin og eina svarið sem þetta frumvarp á að leysa úr.

Varðandi kærunefndina og að Útlendingastofnun hafi verið gerð afturreka þar þá viðurkenni ég að ég þekki ekki statistíkina en hef auðvitað séð fréttir eins og annað fólk. Það sem gerist þegar kærunefndin snýr við úrskurði er að þá er líka verið að jafna leikinn með tilliti til þess að það er einhver almenn regla sem gildir og að það sé jafnræði, að tvö hliðstæð mál fái sömu niðurstöðu. Ef það gerist oft að stofnun er gerð afturreka fyrir kærunefndinni þá er auðvitað sú hætta fyrir hendi að það sé einhver innbyggð kerfisvilla um að a og b í svipuðum aðstæðum fá ekki sömu niðurstöðuna.

Ég er þeirrar skoðunar að vitaskuld eigi stóra markmiðið að vera það að fólk sem er að sækja hingað á flótta fái skjól en að reglurnar eigi að vera almennar og að þær eigi að byggja á jafnræði en síðan smíðum við auðvitað kerfið utan um þann veruleika að þetta er mannanna verk. Löggjöfin er mannanna verk, ákvarðanirnar eru mannanna verk, túlkunin er mannanna verk og þess vegna þarf að vera svigrúm fyrir mat, til að geta tekið á því að veruleiki fólks er ekki allur hinn sami.