Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:34]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi einmitt þetta atriði, atvinnuréttindi fólks utan EES-svæðisins, í fyrsta lagi vegna þess að ég er einlæglega þeirrar skoðunar að þar ættum við að opna betur og það gæti þjónað þörfum íslensks atvinnumarkaðar og íslensks samfélags. Það er einmitt oft þannig í þessari umræðu að það er verið að tala um að flóttamannakerfið eigi að vera fyrir þá sem eru í raunverulegri þörf og raunverulega í þeirri stöðu að vera á flótta. Ég held að allir geti verið sammála um að auðvitað á markmiðið að vera að geta tekið utan um þá sem raunverulega eru í þeirri stöðu. Þá heyrir maður þetta; að það væri ákjósanlegt að hafa aðrar leiðir fyrir þau sem ekki eru í eiginlegum skilningi í þeirri stöðu að vera á flótta heldur leiti sér betra lífs úr erfiðum aðstæðum. Síðan held ég að það sé bullandi pólitík í því hverju fólk trúir um það hversu mikið sé um að fólk sæki hingað skjól á röngum forsendum. En það er annað samtal. Engu að síður er staðreyndin sú að eftir fimm ár af þessu samtali og fimm ár af þessari orðræðu meiri hlutans í ríkisstjórn þá hafa þau ekki gert neinar tilraunir, ekki lagt fram neinar tillögur í þá veruna að rýmka þennan rétt með þeim hætti sem þau sjálf tala fyrir að gæti létt á þessu kerfi, þ.e. með því að rýmka lög og regluverk um möguleika fólks til að flytja til Íslands til að sækja sér vinnu. Í því samhengi held ég að það hljóti að vera holur hljómur í því að geta talað fyrir þessu árum saman en takast ekki afgreiða þetta mál, tala árum saman um aðra löggjöf sem á að standa henni við hlið og styðja við hana en gera svo ekkert.