Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:16]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið. Ég var að útskýra 1. gr. frumvarpsins og reyndar líka 7. gr., þær spila dálítið saman, að nokkru leyti. Það hryggir mig reyndar að sjá að hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir er farin úr salnum. Ég vona samt að hún sé að hlusta af því að ég held að hún hafi haft raunverulegan áhuga á því sem ég var að útskýra hérna. Fyrir þau sem ekki eru endilega öllum hnútum kunnug í löggjöfinni, eru ekki laganördar, þá eru stjórnsýslulög lög sem gilda um alla stjórnsýsluna, allar ákvarðanir sem stjórnvöld taka um réttindi og skyldur borgaranna. Þau eru talin vera ákveðnar lágmarksreglur, grundvallarreglur, um þau réttindi sem borgararnir hafa í samskiptum við stjórnvöld. Þetta eru reglur sem kveða t.d. á um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Stjórnvöldum ber að leiðbeina borgurunum ef borgararnir eru að gera einhverja vitleysu, beina erindi á vitlausan stað eða gera það með röngum hætti. Ekki er gerð krafa um það í okkar kerfi að fólk sé löglært til þess t.d. að geta sótt um byggingarleyfi eða kært eitthvert eða eitthvað og það hvílir því leiðbeiningarskylda á stjórnvöldum. Það eru fleiri reglur, það eru reglur um málshraða, ákvarðanir í málum skulu teknar eins fljótt og unnt er og allt það; það er rannsóknarregla, stjórnvöld skulu rannsaka mál áður en þau taka ákvarðanir; það er jafnræðisregla og meðalhófsregla og alls konar skemmtilegar reglur.

Tímans vegna ætla ég að vinda mér beint í þá reglu sem meiri hlutanum hér á þingi finnst eðlilegt að gildi ekki um umsækjendur um alþjóðlega vernd, eða um umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd. Þess má geta að undir meðferð málsins í allsherjar- og menntamálanefnd kom skýrt fram að undanþágur af þessu tagi, undanþágur frá þessum rétti í stjórnsýslulögum, eru ekki þekktar. Við spurðum einstaklinga sem þekkja hvern krók og kima í þessari löggjöf og þeim, með öllum venjulegum fyrirvörum, var ekki kunnugt um að það tíðkaðist neins staðar annars staðar að firra fólk þessum rétti, þ.e. réttinum til þess að fá mál tekið til meðferðar á ný. En skilyrðin eru nokkuð þröng: Hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik — þetta held ég að öllum geti þótt rökrétt. Ein ástæðan er þessi: Ef stjórnvald tekur ákvörðun í máli sem varðar borgara sem hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, finnst okkur þá ekki eðlilegt að einstaklingurinn eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný, að það sé endurupptekið? Jú, okkur finnst það. Þess vegna höfum við sett þessi lög sem hafa gilt hér í áratugi og eru meira að segja talin vera lögfestar óskráðar grundvallarreglur í samskiptum borgaranna við stjórnvöld. Hin ástæðan fyrir því að fólk geti átt rétt á því að mál þess, sem er lokið, sé tekið til meðferðar á ný er ef ákvörðun um boð eða bann, svo sem ákvörðun um að fara af landi brott eða ákvörðun um að mega gera eitthvað eða mega ekki gera eitthvað, er íþyngjandi og hefur byggst á atvikum sem hafa breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Finnst okkur það ekki líka rökrétt? Er ekki rökrétt að ef atvik hafa breyst verulega, atvik sem ákvörðunin er byggð á, frá því að ákvörðun var tekin, getum við fengið málið endurupptekið? Jú, það er það. Þess vegna er þetta ein af almennum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar sem gildir um allar borgarana, þetta er 24. gr. stjórnsýslulaga.

Í lokamálsgrein 7. gr. frumvarpsins sem við erum að ræða í dag segir:

„Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um endurupptöku gilda ekki um ákvarðanir í málum er varða alþjóðlega vernd“.

Svo voga frumvarpshöfundar sér að setja í greinargerð að frumvarpið gefi ekki tilefni til að kannað sé hvort það standist stjórnarskrá og þar með þau mannréttindi sem þar er kveðið á um. En fyrir þau sem ekki vita þá eru það mannréttindi að eiga raunhæfa möguleika á því að fá rétt sinn fram.

Ég kemst ekki lengra með þetta í bili en það er þetta sem við erum að gera með þessari 1. gr. sem frumvarpshöfundar láta í veðri vaka að snúist um endurteknar umsóknir. Þetta snýst ekkert um endurteknar umsóknir, þær eru ekkert sérstakt vandamál hér á Íslandi, þær eru örfáar á ári hverju. Þetta snýst um að koma í veg fyrir að fólk geti fengið mál sitt endurupptekið ef ný gögn koma fram í málinu eða ef forsendur eru með öllu breyttar.