Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:00]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta allsh.- og menntmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Frú forseti. Ég held hér aðra ræðu mína um þetta mikið umrædda litla útlendingafrumvarp en verð að víkja aðeins frá áformum mínum um áhersluatriði í ljósi umræðunnar sem hefur átt sér stað á milli þess sem ég flutti fyrri ræðuna og svo seinni ræðuna sem ég flyt nú. Það hefur komið enn betur í ljós en áður að þetta er á mörkunum að vera ríkisstjórnarfrumvap. Hér fyrr í dag t.a.m. virtist formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs varla kannast við það en lagði fyrst og fremst áherslu á hvað VG hefði gert mikið til að draga úr vægi frumvarpsins, minnka það enn frekar. Þetta er mjög áhugavert í ljósi sögu málsins en málið er nú lagt fram í fimmta sinn þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar þeirra ráðherra sem hafa talað fyrir málinu á fyrri stigum, um að það nyti stuðnings og brýnt væri að klára það.

Við lok síðasta þings, síðastliðið vor, var keyrt í gegn í þriðju tilraun frumvarp um svokallaða samræmda móttöku. Það frumvarp vinnur í raun gegn markmiðum þessa frumvarps, auglýsir Ísland enn frekar sem áfangastað með því að veita öllum sama rétt, hvort sem þeim er boðið hingað, kvótaflóttamönnum sem Íslendingar hafa viljað taka vel á móti og gera vel við í gegnum tíðina, eða að þeir koma á eigin vegum eða þeirra sem skipuleggja fólksflutninga. Nú á það sama að gilda um alla, hvernig sem þeir fá hæli eða landvistarleyfi, að þeir njóti allir þessarar sömu þjónustu. Þeir sem voru áður að meðaltali 24 á ári, frá stofnun flóttamannaráðs, 1995–2019, verða núna, eftir síðasta ár, líklega um 5.000. Þegar þetta var klárað á sínum tíma og Sjálfstæðisflokkurinn lét teyma sig í þessu eins og svo mörgu öðru — þetta var mál sem ráðherrar Framsóknarflokks og Vinstri grænna höfðu mælt fyrir — þá fylgdi víst það skilyrði að litla útlendingafrumvarpið yrði klárað í beinu framhaldi. Það kom hingað inn í þingið í fyrra og gekk greinilega brösuglega. Þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Orri Páll Jóhannsson, sagði að málið hefði að vísu verið afgreitt úr þingflokki Vinstri grænna en bara að því leyti að þingflokkurinn væri til í að málið yrði rætt; hann lýsti ekki einu sinni yfir stuðningi við ríkisstjórnarfrumvarp. Þegar mál eru afgreidd úr ríkisstjórn njóta þau þar með stuðnings ríkisstjórnarinnar nema hugsanlega að sérstakir fyrirvarar séu settir á því stigi.

Nú er þetta komið í einhverja furðulega óvissu þrátt fyrir að búið sé að gera málið að nánast engu. Það er fyrir tilstilli Vinstri grænna, eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á í viðtali í fyrradag, held ég að það hafi verið, og hæstv. félagsmálaráðherra hér í þinginu í dag, búið að taka út úr frumvarpinu mesta bitið, þau atriði sem hefðu haft hvað mest áhrif, til að mynda það að ef umsækjandi væri þegar búinn að fá hæli í öðru landi ætti sá hinn sami að fara þangað aftur og nýta sér þann rétt sem þegar væri kominn. En nú er þetta ekki lengur í frumvarpinu og jafnvel þótt menn séu þegar komnir með hæli í öðru landi þá geta þeir farið í gegnum allt það langa ferli sem hér viðgengst og öll þau flækjustig og þær áfrýjanir sem íslensk stjórnvöld bjóða upp á — þau búa til þessa svokölluðu segla, sem hæstv. dómsmálaráðherra kallar svo, sem veita Íslandi sérstöðu og draga hingað að umsækjendur um það sem menn vilja kalla alþjóðlega vernd, þ.e. hælisleitendur, umfram önnur lönd hlutfallslega.

Þetta mál tekur ekki á vandanum og hann er stór, eins og ég rakti hér í fyrri ræðu. Við myndum að sjálfsögðu, ef við gætum, vilja hjálpa öllum í heiminum sem standa höllum fæti af einhverjum ástæðum. Við myndum væntanlega líka vilja hjálpa öllum á Íslandi sem standa höllum fæti af einhverjum ástæðum. En það er vandi stjórnmálamanna að þurfa að forgangsraða og nýta sem best það fjármagn sem þeir hafa yfir að ráða. Þá hlýtur maður að spyrja aftur þegar vandinn, viðfangsefnið, er svona stór — það er talað um 100 milljónir flóttamanna og ég fór yfir það í fyrri ræðu að þeim mun bara fjölga, m.a. mun þeim fjölga með auknum lífsgæðum eins undarlega og það kann að hljóma. Þegar vandinn er þetta stór hljótum við að vilja nýta þá möguleika sem við höfum, það fjármagn, sem allra best til að hjálpa sem best þeim sem eru í mestri neyð. En fyrirkomulagið hér gerir okkur það ekki kleift, enda gengur það í berhögg við stefnu annarra Norðurlanda, sérstaklega þróunina á undanförnum árum, sem eru þó að reyna að ná tökum á málaflokknum til að geta gert sem mest gagn fyrir þá sem eru í mestri neyð. Oft hefur verið talað um Danmörku þar sem forsætisráðherrann, Mette Frederiksen, sagði að markmiðið með stefnunni væri að enginn kæmi til Danmerkur til að sækja þar um hæli. Danir myndu áfram taka á móti flóttamönnum, raunverulegum flóttamönnum, en þeir vildu hafa stjórn á því hverjir kæmu og bjóða fólki sem sækti um hæli í Danmörku, en gerði það í öðrum löndum, að koma til landsins og með ákveðnum skilyrðum, m.a. skilyrðum um aðlögun að samfélaginu. Slíkt hefur varla mátt nefna hér í umræðu um þennan málaflokk á Íslandi enn sem komið er. Það kemur að því. Líklega kemur ekki að því fyrr en það verður orðið of seint að huga að málinu eins og allt of oft er hjá okkur við umfjöllun um stórmál.

Í umræðunni kom eitt og annað áhugavert fram eða hefur gert fram að þessu og ég næ ekki að rekja allt sem ég hefði talið tilefni til að nefna. En tvö atriði ætla ég að nefna. Það er annars vegar þegar hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði að Miðflokkurinn væri ákafur, ég man ekki orðalagið nákvæmlega, að styðja þetta mál. Nei, það er aldeilis ekki. Við höfum gagnrýnt þetta mál mjög harkalega, gerðum það reyndar á fyrri stigum áður en það var þynnt enn meira út. Nú er þetta komið á það stig að maður er einfaldlega farinn að velta fyrir sér hvort málið sé til bóta eins og það stendur núna, hvað þá hvernig það gæti orðið eftir innsendingu í nefndina en það er áformað að senda málið aftur inn í nefnd og hæstv. forsætisráðherra hefur boðað það í viðtölum að þar geti það tekið einhverjum breytingum sem væru til bóta að mati Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Hæstv. félagsmálaráðherra vildi þó ekki, að sögn, hér fyrr í dag skipta sér af gangi málsins. En það var ekki annað að heyra en að forsætisráðherrann ætlaði að reyna að stuðla að því að á þessu yrðu gerðar enn meiri breytingar til að niðurlægja Sjálfstæðisflokkinn enn meira. Þá vitum við ekkert hvað út úr því kemur. En maður fer að velta fyrir sér hvort þetta litla útlendingafrumvarp sé yfir höfuð til bóta lengur. Ég ætla að vísa í annan hv. þingmann sem tók þátt í umræðu um málið. Það er reyndar, svo að ég gleymi því ekki, frú forseti, áhugavert að sjá að stjórnarliðar hafa verið alveg furðu ragir við að koma upp og styðja málið. Það veldur manni stundum áhyggjum þegar þeir sem leggja fram boðað mál, meiri hlutinn, sjá ekki ástæðu til að taka þátt í umræðunum og styðja við eigin mál, hvað sem veldur, hvort sem það er vegna þess að ekki er samstaða um þetta í ríkisstjórninni — Sjálfstæðisflokkurinn, hugsanlega orðinn ósáttur við afraksturinn, rýrðina. Enda — já, ég gleymdi að nefna það líka — var það þingflokkur Sjálfstæðismanna sem gerði fyrirvara við málið við afgreiðslu þess úr þingflokknum. Það fór hraðar í gegnum þingflokk Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Framsóknarflokksins en Sjálfstæðisflokksins. Þar stoppaði það og gerðir voru einhverjir fyrirvarar sem við vitum ekki enn hverjir voru en virtust lúta að því hversu rýrt þetta væri orðið.

Þá aftur að efninu. Ég ætlaði að nefna orð hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur sem lagði til að tekist yrði á við þennan vanda, þetta mál, og þá stöðu sem það er komið í, með því að skipa þverpólitíska nefnd. Nú ætla ég bara að veita hæstv. ríkisstjórn þau ráð að fara ekki að þeirri tillögu því að þessi vandi sem við erum í er að miklu leyti til kominn með vinnu þverpólitískrar nefndar þegar ráðherra Sjálfstæðisflokksins tók upp á því á sínum tíma að skipa þverpólitíska nefnd um endurskoðun þessara útlendingalaga, í raun að skrifa ný útlendingalög, og undir forystu þingmanns stjórnarandstöðunnar. Út úr því kom alveg handónýtt mál eins og reynsla áranna sem eru liðin síðan sýnir. Það sem ætti að gera er: Jú, það má hugsanlega klára þetta. Það skiptir í raun mjög takmörkuðu máli varðandi umfang vandans. Það sem ráðherrann ætti að gera er að taka forystu í málaflokknum, taka forystu í eigin málaflokki, fá þá sem best þekkja til, þá sem starfa við þetta, sérfrótt fólk, til þess að ráðleggja sér en koma svo einfaldlega með pólitískt frumvarp, einhverja stefnu, einhverjar lausnir á því hvernig eigi að takast á við þennan málaflokk. Það hafa stjórnmálaflokkar, stjórnmálamenn, á öðrum Norðurlöndum gert. Danski jafnaðarmannaflokkurinn efndi ekki til þverpólitísks samræðukaffiklúbbs um hvað ætti að gera í málaflokknum. Hann ræddi málið reyndar mikið og lengi innan eigin flokks og komst að þeirri niðurstöðu að menn þyrftu að taka forystu, læra af reynslunni og þora að gera það sem aðstæður kölluðu á. Það verður ekki vart við neitt slíkt hjá þessari ríkisstjórn og svo sem ekki bara í þessu máli heldur virðist það vera almennt að ráðherra langi bara að fá að fljóta áfram í gegnum hin ýmsu viðfangsefni sem samfélagið stendur frammi fyrir án þess að þurfa í raun að lýsa skoðun eða taka á þeim. Og afraksturinn er þessi: Litla útlendingafrumvarpið lagt fram í fimmta sinn. Á sama tíma heldur lífið áfram og hlutirnir þróast, ekki bara á Íslandi heldur í löndunum í kringum okkur. Við sjáum hvernig jafnvel Schengen-samstarfið hefur komist í uppnám og er það að einhverju leyti enn vegna þess að stjórnvöld í ýmsum öðrum löndum töldu þetta það stórt mál og varða heill samfélaga sinna að þau sáu ástæðu til að víkja frá reglum Schengen og bjóða Evrópusambandinu birginn. Það eru engin merki um að þessi ríkisstjórn þori að bjóða Evrópusambandinu birginn á nokkurn hátt. Sífellt fleiri hafa orðið til að benda á hversu stór þessi vandi er og að það þurfi að nálgast hann á nýjan hátt. Meira að segja Bill Gates, sem er nú stundum nefndur í einhvers konar samsæriskenningum um yfirtöku á veröldinni, maður sem jafnvel hefur veitt meiri mannúðaraðstoð til Afríku en nokkur annar á undanförnum árum, segir að núverandi nálgun myndi hvetja sífellt fleiri til að yfirgefa álfuna og leita til Evrópu og Evrópa myndi ekki ráða við það, frekar ætti að bæta í þróunaraðstoð. Það má taka undir þau orð. Við þurfum að veita eins mikla þróunaraðstoð og við höfum tök á og varðandi hælisleitendamálin sérstaklega þurfum við að nýta tækifæri okkar og fjármagn þannig að það gagnist sem flestum. Það fyrirkomulag sem við búum við á Íslandi núna gerir þveröfugt.