Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:18]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta allsh.- og menntmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Það virðist a.m.k. vera tilfellið hjá þessari ríkisstjórn en með mjög ólíkum hætti. Ég vek athygli á því að Sjálfstæðisflokkurinn lætur nú eitt og annað yfir sig ganga, innleiðir hér alls konar dellumál sem Vinstri grænir finna upp en leggur ekki í að klára eigin mál ef VG gerir athugasemdir við þau. Og þegar ákvörðun er tekin um að afgreiða mál úr ríkisstjórn, eins og ég kom aðeins inn á áðan, þá er málið ríkisstjórnarmál á ábyrgð flokkanna allra. Auðvitað gerðist það stundum að einhver ráðherra í minni tíð gerði eitthvað sem maður var ekki alveg sammála eða sáttur við en gat breytt reglugerð, þurfti í raun ekki leyfi til þess. En nú sjáum við að ráðherrar Vinstri grænna mega, að því er virðist, breyta sínum reglugerðum að vild en sjálfstæðisráðherrarnir þurfa að fá leyfi frá VG til reglubreytinga svo að valdahlutföllin í ríkisstjórninni virðast vera býsna ójöfn. Við sjáum þetta til að mynda líka í allt öðru máli, í málinu sem hæstv. forsætisráðherra kynnti um hatursnámskeiðin. Þar virðist ekki þurfa samþykki Sjálfstæðisflokksins. Ráðherrann bara boðar þetta og viðbúið að enn á ný verði það afgreitt með þeim hætti, eins og stundum hefur gerst hjá ríkisstjórninni í ljósi þessara valdahlutfalla, að einhverjum Sjálfstæðismönnum er til málamynda leyft að segjast vera á móti málinu eða hafa efasemdir um það en svo treystir þessi sami Sjálfstæðisflokkur vinstri flokkunum í stjórnarandstöðu til þess að afgreiða málið fyrir sig og fyrir Vinstri græna. Þetta valdaójafnvægi en um leið núningur í ríkisstjórninni finnst mér vera að aukast verulega hratt.