Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:22]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta allsh.- og menntmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég styð aukna þróunaraðstoð en það að þessi málaflokkur, sem við ræðum í dag, sé í þeim ólestri sem hann er gerir okkur erfiðara fyrir að auka stuðning við þróunaraðstoð og aðstoða í nærsamfélaginu. Allt hangir þetta saman, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það eru t.d. takmörk fyrir því hver útgjöld ríkisins geta verið. En sem viðbót við þessa yfirlýsingu um að ég styðji sannarlega aukna þróunaraðstoð, eins og ég hef nú löngum gert, og til að svara spurningu hv. þingmanns um þátttöku í einhverri áætlanagerð um það, tel ég mikilvægt að nefna að það skiptir auðvitað öllu máli hvernig fjármagnið er nýtt, ekki bara hver upphæðin er eða hlutfall af landsframleiðslu, þó að það megi auka það, eins og ég hef sagt áður. Aðalatriðið er: Hvernig nýtist fjármagnið best til að gera sem mest gagn? Þetta er í raun það sama og varðar heilbrigðiskerfið á Íslandi, eins og ýmsir hafa orðið til að benda á að undanförnu, nú síðast Björn Zoëga. Vandinn þar er kannski ekki skortur á fjármagni, það er til að mynda búið að auka mjög verulega framlög til Landspítalans, vandinn er hvernig fjármagnið er nýtt, vandinn er skipulagið. Í þróunaraðstoð kemur þessi skipulagsvandi oft upp og milliliðirnir geta orðið dýrir og þar fram eftir götunum. Það sem ég myndi vilja leggja áherslu á í þessari vinnu, sem við þá hugsanlega förum í, eru ekki bara upphæðirnar heldur líka nýting fjármagnsins. Maður sér auglýsingar frá hinum ýmsu hjálparstofnunum um að það þurfi að styðja börn til að fá bólusetningu eða aðgang að vatni o.s.frv. Og maður veltir fyrir sér: Af hverju eru þróunarlöndin ekki búin að leysa svona grundvallaratriði? En það hefur eitthvað með skipulagið á þessu að gera og auðvitað fjárveitingarnar líka, þetta þarf að hanga saman.