Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp í seinni ræðu en ég flutti nefndarálit 2. minni hluta í fyrradag. Mig langar að fara aðeins betur yfir málið og nýta rétt minn til annarrar ræðu hér. Staða þessa málaflokks er engan veginn nægilega góð í íslensku samfélagi. Ég tel að það séu ýmsar ástæður fyrir því, eins og ég rakti í fyrri ræðu. Þar er það fyrst og fremst það að við erum með sérreglur, það er eitt helsta vandamálið. Ísland á að sjálfsögðu að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar eins og önnur ríki sem eru aðilar að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Það eigum við að gera vel og taka vel á móti því fólki sem fær hér alþjóðlega vernd, af þeim umsóknum sem samþykktar eru. Við eigum hins vegar ekki að vera með sérreglur, reyna að gera eitthvað allt öðruvísi en allir aðrir og reyna að ganga lengra en alþjóðlegar skuldbindingar okkar kveða á um. Málaflokkurinn býður einfaldlega ekki upp á það. En við erum enn þá með sérreglur og samkvæmt þessu frumvarpi er ekki verið að taka á þeim.

Við erum líka með úrskurð kærunefndar útlendingamála sem er mjög sérstaks eðlis og byggist á því að vegna efnahagsástandsins í Venesúela séum við að taka á móti fólki frá Venesúela og veita því alþjóðlega vernd, þ.e. vegna þess að þar sé slæmt efnahagsástand. Á tímabilinu janúar til nóvember í fyrra sóttu 966 einstaklingar frá Venesúela um alþjóðlega vernd, bara í nóvember sóttu 202 frá Venesúela um alþjóðlega vernd. Í sama mánuði voru umsóknirnar 166 frá Úkraínu þar sem er stríð. Það voru fleiri frá Venesúela en frá Úkraínu. Þetta byggir allt á úrskurði kærunefndar um útlendingamál og ég tel að sá úrskurður byggist á efnahagsástandinu í ríkinu.

Spurningin er þessi: Hver ræður gangi mála í þingræðisríki? Hver ræður gangi mála í þessum málaflokki? Er það Alþingi eða kærunefnd útlendingamála? Ég segi að það sé Alþingi Íslendinga. Aðalúrskurðurinn er nr. 231/2022. Í úrskurðinum vísaði kærunefndin ítrekað til efnahagsástandsins í Venesúela, samanber eftirfarandi umfjöllun, með leyfi forseta, og þetta er í lok úrskurðarins.

„Þá er ljóst að alvarlegt efnahagsástand í landinu og skortur á aðgengi almennings að fæðu, hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu stafar fyrst og fremst af aðgerðum stjórnvalda en ekki af utanaðkomandi þáttum líkt og þurrkum eða öðrum náttúruhamförum. Af framangreindum gögnum um heimaríki kæranda er ljóst að dregið hefur úr átökum í landinu síðustu ár þrátt fyrir það sé öryggisástand enn verulega ótryggt og glæpa- og morðtíðni há. Verður því ekki talið að aðstæður í landinu nái því marki að sérhver einstaklingur sem þangað fari eigi á hættu að láta lífið eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum. Á hinn bóginn er það mat kærunefndar að þegar markvissar aðgerðir stjórnvalda til að bæla niður andstöðu í landinu, alvarlegt efnahagsástand þar sem laun duga ekki til að uppfylla grunnþarfir almennings í landinu, skortur á hreinu drykkjarvatni, há glæpatíðni, skortur á lögregluvernd og algert hrun réttarkerfisins leggjast saman geti aðstæður einstaklinga við endursendingu til Venesúela náð því marki að rétt sé að veita þeim viðbótarvernd hér á landi.“

Hér er verið að vísa til efnahagsástands og samfélagsaðstæðna í Venesúela; alvarlegt efnahagsástand, há glæpatíðni, há morðtíðni, að það sé skortur á hreinu drykkjarvatni og skortur á lögregluvernd. Flokkur fólksins telur að þessi úrskurður gangi einfaldlega of langt. Það sé ekki hlutverk kærunefndarinnar að kveða á um það að Ísland taki á móti fólki frá Venesúela vegna þess að þar er slæmt efnahagsástand. Það er slæmt efnahagsástand mjög víða í heiminum. Venesúela er mjög sérstakt ríki. Þar eru einar verðmætustu olíuauðlindir heims, meiri olíuauðlindir en í Sádi-Arabíu og raunverulega verðmætari af því að olían er einfaldlega miklu betri þar. Þar búa 30 milljónir manna á milljón ferkílómetrum. Það er meira en á öllum Norðurlöndunum. Á Norðurlöndunum búa um 26 milljónir manna. Það gengur ekki að Ísland ætli að taka á móti öllum sem hingað vilja koma frá Venesúela af því að þar er slæmt efnahagsástand. Þess vegna er Flokkur fólksins og 2. minni hluti með breytingartillögu um það, og hún er í 5. tölulið, sem er viðbót við 9. gr. laga um útlendinga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við mat skv. 2. mgr. skal ekki leggja til grundvallar efnahagsástand í viðkomandi ríki þegar metið er hvort einstaklingur eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.“

Það er alveg augljóst mál að það er hlutverk Alþingis að taka fram fyrir hendurnar á kærunefnd útlendingamála þegar hún kveður upp úrskurð sem byggir eingöngu á efnahagsástandi, það er alveg kristaltært. Í nefndaráliti 2. minni hluta, sem ég mælti fyrir hér í fyrradag, vísaði ég til handbókar frá Sameinuðu þjóðunum sem fjallar um meðferð mála í þessum málaflokki. Á því byggir það að ekki sé hægt að leggja til grundvallar efnahagsástand í ríki. Þetta er handbók, um málsmeðferð og skilgreiningu á stöðu flóttamanns samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, sem gefin var út af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna þar sem m.a. er fjallað um skilin milli efnahagslegra innflytjenda og flóttamanna. Við eigum ekki að vera að taka á móti efnahagslegum innflytjendum í þessu kerfi sem lýtur að alþjóðlegri vernd. Við eigum að taka við flóttamönnum sem búa við ástæðuríkan ótta um að vera ofsóttir vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana, svo að vísað sé til skilgreiningar á flóttamanni í lögum um útlendinga. Það er þannig fólk sem við eigum að taka á móti, fólk sem býr við ótta við að vera ofsótt. Við eigum hins vegar ekki að gera þetta með sama hætti og kærunefnd útlendingamála. Það er mjög mikilvægt grundvallaratriði að Alþingi Íslendinga taki á þessu máli og setji reglur þar sem ekki er hægt að byggja úrskurð á þessu.

Ég vil benda á að á árinu 2021 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að breyta stjórnsýsluframkvæmd og tilkynnti að framvegis yrði lagt einstaklingsbundið mat á það hvort umsækjendur ættu rétt á viðbótarvernd skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga sökum þess að aðstæður í Venesúela hefðu breyst til hins betra og vísaði m.a. til þess að í Noregi væri búið að breyta framkvæmdinni á þessa vegu. Kærunefnd útlendingamála kvað hins vegar upp úrskurð fyrr á árinu sem tók þessa framkvæmd úr sambandi. Okkar hlutverk er að setja þessa framkvæmd aftur í samband. Það er ekki hægt að við séum að taka á móti fólki, sennilega 1.500 manns á síðasta ári — umsóknir í janúar til nóvember voru hátt í 1.000, 966 eins og áður sagði. Og ég hef heyrt að í desember séu þær hátt í 500. Við getum ekki verið að taka á móti fólki, 1.500 manns á ári frá Venesúela, ár eftir ár, kannski 2.000 á hverju ári. Það myndi gera 20.000 á tíu ára tímabili. Þetta er stóra vandamálið, það er ekki fjallað um þetta í frumvarpinu. Það er mikilvægt, ef við ætlum að ná tökum á þessum málaflokki sem við höfum ekki í dag, við höfum enga stjórn á þessum málaflokki, að við tökum á þessu atriði. Svo einfalt er það. Eins og Laxness sagði: Þetta fer jú alltaf allt einhvern veginn hér á Íslandi. Það er svo sannarlega í þessum málaflokki, það er ófremdarástand í honum og hann er stjórnlaus. Það er okkar skylda hér á Alþingi Íslendinga að taka á þessum málaflokki svo að hann verði kominn í viðunandi horf.

Árið 2015, flóttamannaárið mikla í Evrópu, tók Svíþjóð á móti 170.000 manns. New York Times sagði í grein að það samsvaraði því að Bandaríkin tækju á móti 5,2 milljónum manna, 5,2 milljónum hælisleitenda. Það þýðir, ef Ísland ætlaði að taka hlutfallslega jafnmikið og Svíar gerðu 2015, að við tækjum á móti 5.200 manns á ári. Það getum við ekki. Við getum það einfaldlega ekki. Svo einfalt er það. Þó að við hefðum alla góðmennsku í heimi myndi íslenskt samfélag fara á hvolf. Ef við myndum gera það á tíu ára fresti þá væru það 52.000 manns. Umsóknir í janúar til nóvember voru komnar hátt í 4.000 á síðasta ári, 3.936 í janúar til nóvember í fyrra, árið 2022. Svo veit ég fyrir víst að þær voru sennilega hátt í 1.000 í janúar, þannig að þær eru komnar í 5.000 þar. Það er klárt mál að umsagnirnar í fyrra, sem nú eru í meðferð, eru 4.000–5.000, ég myndi giska á 4.500 svo að ég sé varfærinn í matinu. Við getum ekki tekið á móti 4.500 manns ár eftir ár. Við getum það ekki. Það er mín skoðun og ég óska eftir því að aðrir flokkar lýsi skoðun sinni á því hversu mörgum við getum tekið á móti. Við getum ekki tekið á móti 45.000 manns á tíu ára fresti. Við getum það ekki, svo einfalt er það. Þessi málaflokkur er algjörlega stjórnlaus.

Það sem gerðist í Svíþjóð er mjög áhugavert — ég bjó nú í Noregi og er enn með annan fótinn þar. Afleiðingarnar af því að taka á móti svo mörgum, 170.000 manns, eru þær að flokkakerfið í Svíþjóð, þar sem verið hefur mjög stöðugt samfélag áratugum saman, er algerlega að riðlast. Það er kominn upp stjórnmálaflokkur þar sem er á móti því að Svíar hafi tekið á móti svona mörgum og er með 21% fylgi. Það er búið að setja flokkakerfið þar algjörlega á annan endann, nánast snúa því á hvolf.

Við eigum ekki að fara þessa leið. Við eigum að horfa til fordæma annarra og sjá hver staðan er. Ég óska bara eftir því að aðrir flokkar lýsi því yfir — ef þeir telja að við eigum að taka á móti 5.000 manns á ári þá eiga þeir bara að segja það. Ég er ekki í Open Borders, ég tala ekki fyrir opnum landamærum. Ég tel að við eigum að standa við skuldbindingar okkar samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og gera það vel, gera það mjög vel, ekki að vera með sérreglur eins og við erum með í dag. Þetta frumvarp tekur ekki á sérreglunum. Það tekur ekki á 12 mánaða reglunni, t.d. í 8. gr. Það að einstaklingur geti komi hingað með alþjóðlega vernd og sótt aftur um alþjóðlega vernd er bara alveg galið. Það er ekkert annað ríki sem gerir þetta, ekki neitt. Við sjáum það alveg sjálf. Ef þú ert kominn með alþjóðlega vernd þá ertu ekki lengur skilgreindur sem flóttamaður, þú býrð ekki við ofsóknir. Þú fellur bara ekki undir skilgreininguna flóttamaður. En við erum að taka á móti fólki sem er þegar komið með alþjóðlega vernd. Af hverju? Jú, sennilega af því að við ætlum að vera best í heimi. Við höfum áhuga á því að vera best í heimi eins og oft; að einhver úti í heimi taki eftir því. Já heyrðu, uppi á litla Íslandi eru þeir að gera svo rosalega flotta hluti, með tvöfalda vernd þar. Þetta gengur ekki upp.

Svo að ég fjalli aðeins um það hvað við erum að gera þetta vel þá er það þannig í íslenskum lögum, og ég er búinn að benda ítrekað á þetta, að fólk sem er í þvingaðri brottför — nú er þetta umsókn, þú sækir um alþjóðlega vernd. Ef þú færð já þá færðu alþjóðlegu verndina. Ef stjórnvöld segja: Nei, við ætlum ekki að veita þér alþjóðlega vernd, þá ber þér að fara af landi brott af fúsum og frjálsum vilja. Ef þú gerir það ekki þá er það svokölluð þvinguð brottför sem fer í fjölmiðla nánast í hvert einasta skipti sem hún er framkvæmd. Öll önnur ríki líta á þetta sem hluta af málsmeðferðinni. Ég spurði sérstaklega að þessu í Noregi. Já, meira að segja hagsmunasamtök hælisleitenda eru á því. Ef málsmeðferð er réttlát þá er þvinguð brottför hluti af ferlinu. Þeir eru líka með svokallað Detention Center sem við erum ekki með. Við erum eitt af fáum ríkjum Evrópu sem eru ekki með slíkar lokaðar búðir. En hvað bjóðum við upp á í staðinn? Jú, við bjóðum upp á það að senda fólk sem er í þvingaðri brottför í gæsluvarðhaldsfangelsið á Hólmsheiði. Það er farið til héraðsdóms, óskað eftir úrskurði og fólkið er sett í einangrunarfangelsi. Hvað segir fólk við því? Það má varla minnast á þetta. Það hafa komið athugasemdir frá Schengen-nefndinni utan úr heimi um það að við séum að setja umsækjendur um alþjóðlega vernd í gæsluvarðhaldsfangelsi. Ég hef þegar komið með skriflega fyrirspurn til ráðherra um það hversu margir þeir eru. Þeir skipta tugum. Það er staðan á málinu hjá okkur Íslendingum. Þetta er skv. 115. gr. laga um útlendinga, um það að heimilt sé að handtaka útlending og færa í gæsluvarðhald að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði eru talin upp í a til h-lið. Í d-lið þeirrar upptalningar segir:

„[ef] endanleg ákvörðun hefur verið tekin um brottvísun, réttaráhrifum hefur ekki verið frestað og tilgangur handtöku er að flytja útlendinginn úr landi …“ — Þá má setja hann í gæsluvarðhaldsfangelsið á Hólmsheiði.

Þetta er staðan í málaflokknum. Ég tel mjög mikilvægt að við tökum á þessu. Að lokum vil ég benda á það að ríki eins og Bandaríkin, sem er þúsund sinnum stærra, ætlar að taka á móti 24.000 manns á ári frá Venesúela af mannúðarástæðum. Það samsvarar 24 einstaklingum á Íslandi.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)