Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vona að hann noti þá daginn, það er ótímabundið, hann getur farið eins oft og hann vill í fimm mínútna ræðu til að leiðrétta þessar misfærslur.

Varðandi það að meiri hluti venesúelskra ríkisborgara búi við hættu: Meiri hluti venesúelskra ríkisborgara er yfir 15 milljónir manna. Í Svíþjóð eru um 10 milljónir manna. Eigum við að taka á móti öllum 15 milljónunum þá? Er það það sem er verið að fara fram á? Það er alveg kristaltært á hverju úrskurður kærunefndar byggir. Þessi úrskurður, nr. 231/2022 segir, með leyfi forseta:

„Þá er ljóst að alvarlegt efnahagsástand í landinu og skortur á aðgengi almennings að fæðu, hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu stafar fyrst og fremst af aðgerðum stjórnvalda …“

Svo fara þeir ofan í það, háa glæpatíðni, skort á hreinu vatni, skort á lögregluvernd o.s.frv. Það er það sem er grundvöllur úrskurðarins og breytingartillaga Flokks fólksins vísar til þess, vísar til handbókarinnar sem er sem skilgreiningargagn hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um muninn á efnahagslegum flóttamanni og flóttamanni. Það er það. Einstaklingurinn verður að búa við ótta. Ef svona er ástandið með Venesúela, að við förum að taka á móti 15 milljónum manna, þá get ég bent á dæmi t.d. af Gaza-svæðinu. Þar búa 1.200 þúsund manns. Það er kallað stærsta fangelsi í heimi. Við getum tekið á móti þeim öllum. Varðandi fjölda í Noregi þá voru 29 umsóknir í Noregi í hittiðfyrra, 2021, 39 frá Svíþjóð, 361 frá Íslandi. Bandaríkin ætla að taka á móti 24.000 manns í nýju prógrammi sem lýtur að því að taka á móti fólki á grundvelli mannúðarástæðna, 24.000 manns frá Venesúela. Hvar kemur það inn á þessar 15 milljónir sem hv. þingmaður var að vísa til? (Forseti hringir.) Það jafngildir að við eigum að taka á móti 24. (Forseti hringir.) Ég er til í að tala um Venesúela í allan dag. Það er það sem er stóra vandamálið í þessum málaflokki, (Forseti hringir.) við erum með kærunefnd úrskurðarmála í útlendingamálum sem hefur tekið sér völd sem hún hefur einfaldlega ekki.