Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:15]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir framsögu sína og fyrir frekari skýringu hans á breytingartillögunni, var það ekki annar minni hluti eins og hann kallast? Og líka þakka honum fyrir að vera skýr með hver markmiðin eru og tilgangur sem er nokkuð sem verður ekki jafn auðveldlega sagt um mjög margt í frumvarpinu sjálfu. Hér áréttar þingmaðurinn, svo að það verður mjög illa misskilið, að markmiðið er draga verulega úr eða hætta alveg að taka við fólki sem kemur frá Venesúela. Eftir að hafa skoðað úrskurðinn sem vísað er til, þetta er úrskurður kærunefndar útlendingamála frá 16. september 2021 væntanlega, þá velti ég svolítið fyrir mér hvort þessu er beint í réttan farveg. Þótt það sé kannski ekki alveg algerlega ljóst þá er í úrskurðinum vísað til fyrri ákvarðana á árunum 2018–2020 sem er bara stjórnvaldsákvörðun um að veita svokallaða viðbótarvernd. Það er kannski ekki sagt alveg berum orðum að þarna komi inn fordæmis- og jafnræðisregla. Mér finnst alveg auðveldlega hægt að lesa þetta þannig sem leiðir þá til þess að kærunefndin er í rauninni að fara eftir fyrra fordæmi frá stjórnvöldum og þessari heimild undir viðbótarvernd. Hvort það megi kannski ekki fara betur yfir, þó að ég sé ekki endilega efnislega sammála þessari nálgun, (Forseti hringir.) og skýra kannski betur, upp á hvaða afstöðu við tökum til þessarar tillögu.