Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:20]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa skýringu. Mér finnst gott að fá það fram að þessu er ekki ætlað að ná yfir alla sem koma frá Venesúela heldur heyrist mér að meiningin sé að ef eingöngu er vísað til efnahagsástands þá muni það ekki eiga við og þá auðvitað ekki bara um Venesúela heldur bara almennt. Til að reyna aðeins að ramma enn betur inn áhrifin og markmiðin: Getur þingmaðurinn skotið á einhverja tölu varðandi það hver áhrifin yrðu, sem sé hvaða hlutfall þeirra sem eru núna að fá vernd eru að fá vernd eingöngu vegna efnahagsástands og myndu þá, ef þessi breytingartillaga yrði samþykkt eða þessi liður hennar, ekki fá vernd? Fyrst markmiðið er að draga úr, hversu mikið myndi þessi breyting draga úr veitingum?