Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:25]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar að taka undir með hv. þingmanni Indriða Inga Stefánssyni að við söknum þess að hér séu þátttakendur í umræðunni. Mig langar þó að byrja á því að þakka frú forseta, hún hefur verið sem þingmaður dugleg við að vera hér. En þegar skoðuð er t.d. þátttaka í umræðunni um þetta mikilvæga mál þá má sjá að í heild hafa tveir ræðumenn komið hingað frá Framsóknarflokknum sem hafa talað samtals í 15 mínútur við 2. umr. Það sama gildir um Vinstrihreyfinguna – grænt framboð, þingmenn hafa talað í 22 mínútur.

Mest af þessum tíma fór í nefndarálit. Það er líka ansi lítið um andsvör frá þessum tveimur flokkum og það er virkilega sorglegt að það skuli ekki vera hægt að halda uppi lýðræðislegum umræðum um jafn mikilvægt mál. Ég spyr sjálfan mig eins og einn hv. þingmaður gerði hér áðan: Er þinghald virkilega orðið þannig að við erum hætt lýðræðislegri umræðu og það að við séum að tala hérna sé bara stimplað sem eitthvert málþóf eða bara helvítis frekja í Pírötum? Afsakið orðbragðið, frú forseti.