Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:33]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegur forseti. Mig langar til að fjalla aðeins um bréf sem allsherjar- og menntamálanefnd barst frá Rauða krossinum þann 23. janúar sl. Þar segir á forsíðu að vísað sé til fundar nefndarinnar með fulltrúum Rauða krossins þann 17. janúar og að þar hafi fulltrúar Rauða krossins verið beðnir um að skila sínum svörum skriflega til nefndarinnar. Þetta fer sem sagt fram 17. janúar, í síðustu viku, og innan við viku síðar er málið komið til meðferðar. Þessi skriflegu svör fá því ekki meðferð inni í nefndinni. Þess vegna finnst mér mikilvægt — úr því að margir hér hafa lagt ríka áherslu á að þetta mál þurfi að fá þinglega meðferð, það sé svo mikilvægt, síðan þurfi bara að sjá hvað setur. Þetta er eitt af því sem þarf augljóslega að taka til greina, þetta er enn frekari árétting á því að Rauði krossinn er meðal þeirra aðila sem eru mjög ósáttir við frumvarpið eins og það liggur fyrir og líka þó að tekið sé tillit til breytingartillögu meiri hlutans.

Ég ætla aðeins að tæpa á því efnislega. Þetta eru atriði sem varða sjálfkrafa kæru, mat á fólki í viðkvæmri stöðu, reglurnar um endurupptöku mála og fyrsta griðland, útvíkkun á því atriði sem er óljóst hvernig verður beitt, á hverja það mun hafa áhrif og líka hvort það mögulega standist alþjóðaskuldbindingar; hvernig ætlunin sé að útfæra þetta.

Svo eru það atriði sem ég tæpti á í minni fyrstu ræðu. Það er skilgreiningin á töfum sem eru á ábyrgð umsækjanda og ekki síst þeirri meiningu sem birtist í frumvarpinu og greinargerð að láta þá staðreynd að metið sé svo að foreldrar barna hafi tafið mál á einhverjum stigum bitna á rétti barna til að fá efnismeðferð eftir 12 mánuði. Mjög furðuleg þráhyggja, finnst mér, gagnvart því að það sé svo mikilvægt að svipta börn rétti til efnismeðferðar, eins og það sé rosalega íþyngjandi fyrir ríkið að þurfa að taka umsóknir barna um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar eftir að þau hafa verið hér — í þessu tilfelli sannanlega, það liggur bara í eðli málsins — í minnst ár og að þessir hagsmunir ríkisins af því að geta hafnað barni efnismeðferð vegi þá ríkar en réttur og hagsmunir barnsins. Það er ekki hægt að ráða í þetta á annan hátt. Þetta er atriði sem þögn hefur ríkt um hérna í salnum að mestu leyti. Hv. þm. Birgir Þórarinsson kom og lýsti sig sammála þessu en það er náttúrlega það sem kemur fram í meðferð nefndarinnar og er hægt að lesa úr henni, þannig að það er ekkert nýtt þar.

En hvað finnst öðrum þingmönnum um þetta atriði, með tilliti til barnasáttmálans til að mynda? Er þetta atriði sem fólki er sama um og treystir þá bara nefndinni sem tók ekki á þessu milli annar að 1. og 2. umr. til að taka á þessu núna eftir 2. umr.?