Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:43]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef í nokkrum ræðum vikið að skilvirkni og reynt að átta mig á því í hverju þessi skilvirkni felst sem verið er að reyna að ná fram með frumvarpinu. Ég er hreinlega að kalla eftir því að ef við erum að leita eftir skilvirkni þá sé hana að finna í umsögnunum um málið, frá 14 ef ekki fleiri samtökum sem hafa lýst þungum áhyggjum af efni frumvarpsins án þess að þess sjáist nokkur merki að tekið hafi verið mark á þeim. Ég er að leita að þessari skilvirkni. Ef við ætlum að nálgast þetta vandamál á þann hátt að við vísum frá fólki í neyð, sem er í leit að vernd, sem á rétt og tilkall til að hljóta hér alþjóðlega vernd — af því að við getum ekki tekið við því? Af því að hvað? Þannig erum við að segja að við ætlum ekki að gangast við þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist með flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þetta er ekki vandamál sem við leysum með excel-skjali. Þetta er vandamál sem við leysum með mannúð. Það er fólk á bak við þessar tölur.

Ég vík aftur að samlíkingunni sem ég kom með í fyrstu ræðu minni. Við leysum ekki utanvegaakstur með því að finna hvar fólk hefur keyrt utan vegar og merkja það sem veg. Það blasir við mér að það standi til með frumvarpinu. Það stendur til með frumvarpinu að finna hvar Útlendingastofnun hefur þurft frá að hverfa með málarekstur fyrir kærunefnd sem hefur tekið, að því er virðist, hárréttar ákvarðanir og veitt fólki vernd sem átti rétt á henni. Nú á greinilega að leiðrétta það sem einhverjum sýnist þá hafa verið mistök með því að útiloka þá möguleika sem nýttir hafa verið — og ekki nýttir heldur tekin ákvörðun og úrskurðað á réttum forsendum. Þetta þykir mér óskiljanlegt. Mér þykir þetta ekki leysa vandamálin. Þetta þykir mér ekki vera skilvirkni og við getum alveg gert málaflokkinn skilvirkari og við getum náð margfalt meiri árangri í málaflokknum. Til þess þarf að fara í samráð við aðilana sem starfa við þessi mál, við aðila sem þekkja hvar vandamálin liggja og eru með tillögurnar og lausnirnar sem okkur vantar í málaflokkinn til að það sé hægt að nálgast þetta með þeim hætti að við séum að tala um einhverja skilvirkni vegna þess að skilvirkni sem felst í því að vísa frá fólki sem á rétt á vernd þykir mér vera öfugmæli. Við fórnum ekki réttindum fólks fyrir skilvirkni. Auk þess langar mig að ítreka ósk mína um að við fáum hér til umfjöllunar þær breytingar sem til stendur að gera á frumvarpinu. Mér þykir það ótækt að þær komi ekki fram hér við 2. umr. á Alþingi. Ég kalla eftir því og ég kalla eftir því að fá hér í umræðna fleiri þingmenn.