Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:56]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Í síðustu ræðu talaði ég aðeins um það að við hefðum verið að synja fólki. Ég tók dæmi um Albana og Kólumbíubúa. Merkilegt nokk er fólk að hlusta á okkur úti í bæ, kannski ekki hér í húsi en fólk virðist vera að horfa á þessar umræður okkar í sjónvarpinu. Ég var beðinn um að segja aðeins meira um það hverjum væri verið að hafna og hversu háu hlutfalli. Síðasta árið sem nákvæmar tölur ná yfir, en Útlendingastofnun á enn eftir að birta tölurnar fyrir 2022, þá eru þær eftirfarandi, en við verðum að muna að þetta var áður en Úkraínustríðið braust út: Þá sóttu hér um hæli 794 einstaklingar. 440 af þeim, eða um 55%, fengu synjun.

Ef við förum í gegnum löndin hvert á fætur öðru þá var það þannig — og ég ætla að skoða þau í röð þaðan sem hæsta hlutfallið fékk synjun. Stærsti fjöldi þeirra sem fengu synjun voru frá Írak. Af þeim 100 sem sóttu um fengu 85 neitun. Fyrir okkur sem erum góð í stærðfræði þá eru það 85%. Næst þar á eftir komu einstaklingar frá Palestínu en af þeim 140 sem sóttu um var 82 synjað eða 59%. Nígeríubúar voru í þriðja sæti en 57 af þeim 60 sem komu hingað var synjað eða 95%. Samt er það nú þannig að í ákveðnum héruðum Nígeríu er hrein og klár borgarastyrjöld í gangi. En ókei. Ég nefndi það líka, en ætla að endurtaka það hér, að Venesúelabúar voru í fjórða sæti yfir þá sem var hafnað en 41 af þeim 176 sem sóttu um var synjað um hæli. Sómalía er land þar sem ríkt hefur algjört stjórnleysi og ástand verið óeðlilegt, borgarastríð, hundruð þúsunda ef ekki milljónir flóttamanna hafa komið þaðan; hér sóttu 46 um hæli og 28 var hafnað eða 61%. Sýrlendingar, það ætti ekki að fara fram hjá neinum að það hefur verið stríð í Sýrlandi en samt var 24 af 51, eða 57%, synjað um hæli. Hingað komu 20 Íranar, 15 af þeim, eða 75%, var synjað um hæli. Afganir voru næstir. Það má reyndar nefna það sérstaklega að Ísland bauð á þessu ári, á árinu 2021, hópi Afgana til Íslands sem svokölluðum kvótaflóttamönnum. Ríkisstjórnin talaði um að taka á móti allt að 200 manns þannig, en raunveruleikinn varð miklu færra fólk; aðrir 37 komu fyrir utan kvótaflóttamenn og af þeim var 12 synjað eða 32%. Eins og ég sagði áðan: Kólumbíubúar, 11 af 11 synjað. Albanar, 10 af 10. Þarna er ég búinn að fara yfir tíu stærstu löndin hvað varðar synjanir en ef farið er í gegnum önnur lönd þar fyrir neðan er næstum því ávallt öllum sem sækja um synjað. Árið 2021 var t.d. Úkraínubúum sem sóttu hér um hæli neitað því að þá var ekki stríð þar, nema þú spyrjir Úkraínubúana, það er auðvitað búið að vera stríð á Krímskaga frá 2014.

En, frú forseti, mig langar að tala aðeins meira um Palestínu og af hverju við erum með svona stóran hóp þaðan hvað synjanir varðar og bið því um að vera settur aftur á mælendaskrá.