Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Nú verða upphafsorð hverrar ræðu þau sömu hjá mér: Þá held ég áfram þar sem frá var horfið. Auðvitað væri vænlegast ef ég gæti einfaldlega fengið þann tíma sem ég þarf til að útskýra þessi ákvæði fyrir fólki en ég er enn þá að útskýra það sem ég tel vera alvarlegasta ágallann á þessu frumvarpi, alvarlegustu breytinguna, hættulegustu breytinguna sem að mínu mati má ekki gerast, — þetta má ekki gerast, kæru þingmenn meiri hlutans, þið megið ekki láta þetta gerast — þ.e. á rétti einstaklinga til að fá mál sitt endurupptekið í kjölfar þess að ákvörðun hefur verið birt ef viðkomandi er með ný gögn eða forsendur eru breyttar, svo sem ef tímafrestir eru uppurnir eða slíkt. Þetta er sem sagt a-liður 1. gr. frumvarpsins sem spilar saman við 7. gr. Til að gæta samhengis ætla ég að lesa upp 7. gr. frumvarpsins. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Á eftir 35. gr. laganna kemur ný grein, 35. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Endurtekinni umsókn skal vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur eru á því að fallist verði á fyrri umsókn hans skv. 24. gr. Verði endurtekin umsókn tekin til meðferðar skal málsmeðferð hennar fyrst og fremst taka mið af þeim nýju upplýsingum eða gögnum sem liggja henni til grundvallar. Endurtekin umsókn telst ekki framhald fyrri umsóknar í skilningi 2. mgr. 36. gr. og 2. mgr. 74. gr.“

Ég geri hlé á tilvitnun. Þarna er lykillinn. Þarna er það sem segir okkur að þessum ákvæðum, þessum breytingum er beinlínis beint gegn fólki sem er að sækja um endurupptöku vegna tímafresta.

„Óafgreiddar umsóknir falla niður við framkvæmd fyrri ákvörðunar eða ef umsækjandi yfirgefur landið sjálfviljugur á meðan endurtekin umsókn er til meðferðar, enda hafi réttaráhrifum fyrri ákvörðunar ekki verið frestað.“

Ég geri aftur hlé á tilvitnun. Þetta er einmitt áhugavert í ljósi þess að þegar óskað er eftir endurupptöku máls — nú hef ég gert þetta mjög oft sem talsmaður umsækjenda — vegna þess annaðhvort að ný gögn hafa komið til eða forsendur eru breyttar, það getur t.d. verið að frestir séu liðnir, þá á fólk rétt á þessari endurupptöku. Það á rétt á því að fá mál sitt endurupptekið. Kærunefnd útlendingamála hefur kerfisbundið neitað að svara beiðnum um frestun réttaráhrifa í þessum málum.

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir það að þegar óskað er eftir endurupptöku — það er búið að ákveða að vísa einstaklingi úr landi til Grikklands og síðan líða þessir 12 mánuðir, við sækjum um endurupptöku, vegna þess að 12 mánuðirnir eru liðnir, það tekur alltaf einhvern einhverja daga að fara yfir þá umsókn og meta t.d. hvort viðkomandi hafi tafið mál sitt sjálfur og annað slíkt. Á þeim tíma er hægt að flytja viðkomandi úr landi því að það er gild ákvörðun sem liggur þarna fyrir en forsendurnar eru breyttar þannig að við erum búin að sækja um endurupptöku. Á meðan þetta er að gerast er hægt að flytja viðkomandi úr landi þannig að við óskum alltaf eftir frestun réttaráhrifa sem þýðir að við óskum eftir því að Útlendingastofnun biðji stoðdeild ríkislögreglustjóra um að hinkra með flutning viðkomandi úr landi þangað til að niðurstaða varðandi endurupptökubeiðnina er komin.

Þessu hafnar kærunefndin ekki einu sinni. Hún kerfisbundið svarar þessum beiðnum ekki. Hún ansar þeim ekki. Á meðan hún svarar þeim ekki þá er ekki búið að fresta réttaráhrifum og það er hægt að flytja viðkomandi úr landi. Þetta sáum við gerast hérna og það kostaði ríkissjóð milljónir um daginn þar sem hópur fólks var fluttur úr landi við mikinn tilkostnað þrátt fyrir að eiga mál í meðferð sem síðan var endurupptekið og þau fengu síðan mál sitt endurupptekið. Af hverju erum við að eyða peningum í þetta? Þetta er bara vitleysa. Með þessum breytingum þá hefði þetta fólk ekki átt neina von eftir að búið var að flytja það úr landi. Málið fellur bara niður. Fyrirgefðu herra Hussein, þú gætir átt rétt á endurupptöku en það er búið að flytja þig nauðugan úr landi og þá fellur málið þitt sjálfkrafa niður. Þú átt engan möguleika á því að leita réttar þíns hér á landi þó að samkvæmt íslenskum lögum hefðir þú átt rétt á að vera hérna. (Forseti hringir.)

Þetta er það sem er verið að reyna að gera. (Forseti hringir.) Það er þetta sem Útlendingastofnun og dómsmálaráðherra gengur til með þessu frumvarpi og þessari breytingartillögu.