Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Það eru mikil vonbrigði að þingmenn meiri hlutans skuli ekki vera reiðubúnir að taka þátt í þessu samtali með okkur hérna. Ég væri mjög gjarnan til í að spyrja þau í fyrsta lagi hvort þau skilji hvað þau eru að samþykkja, hvort þau átti sig á því hverju þau eru að hleypa í gegn og ef svo er hvernig þeim finnist það réttlætanlegt. Ég er enn að reyna að útskýra afleiðingarnar sem verða af þessum ákvæðum frumvarpsins, hverju fyrir sig, þar sem ég hef, eins og ég hef sagt, stórar áhyggjur af því að fólk geri sér hreinlega ekki grein fyrir því. Þá er ég ekki að segja að fólk hafi ekki unnið heimavinnuna sína og hafi ekki lesið málið, hafi ekki lesið frumvarpið, en hins vegar er þessi málaflokkur þannig, og þetta frumvarp ekki síst, að það er erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvað frumvarpshöfundum gengur til án þess að þekkja málaflokkinn.

Ég t.d. sem hef starfað sem lögmaður í þessum málaflokki um árabil get beinlínis séð í hverju einasta ákvæði mál sem liggja þarna á bak við sem koma ekki fram í greinargerðinni. Það kemur ekkert fram í greinargerðinni af hvaða tilefni er verið að setja ákvæðin. Það kemur ýmislegt fram í greinargerðinni um tilefni frumvarpsins en það er, og ég ætla leyfa mér að segja það, og ég meina það, ekki fullkomlega heiðarleg framsetning á tilefninu, því miður.

Það sem ég hef verið að fjalla um í mínum síðustu ræðum og hef ekki alveg enn þá náð að úttala mig um, er ákvæði a-liðar 1. gr., sem spilar saman við 7. gr. frumvarpsins. Það varðar nýtt hugtak sem heitir endurtekin umsókn sem er gott og blessað að sé í lögunum. En á sama tíma er verið að fella niður heimild fólks til að fá mál sitt endurskoðað. Líkt og ég fór yfir áðan er þessu ákvæði augljóslega beint gegn þeim fjölda beiðna um endurupptöku sem hefur borist kærunefnd útlendingamála á undanförnum mánuðum þar sem þær eru farnar að telja talsvert hlutfall af þeim málum sem kærunefnd útlendingamála hefur á sínu borði og þetta er alveg rétt. En þetta er engin tilviljun. Þetta er vegna þess að hér var heimsfaraldur Covid-19, sem ég geri nú ráð fyrir að öll hér hafi heyrt af og orðið vör við sem gerði það að verkum að stjórnvöldum reyndist erfitt og í mörgum tilvikum ókleift að flytja fólk úr landi þar sem það voru miklar takmarkanir á ferðalögum fólks á milli landa. Þarna er ekkert við umsækjendur um alþjóðlega vernd að sakast og það er ekki við umsækjendur að sakast þrátt fyrir að upp komi ákveðnar hindranir sem valda því að það líður langur tími áður en hægt er að flytja viðkomandi úr landi og bara frá lögfræðilegu sjónarmiði þá firrir það fólk heldur ekki rétti sínum til að fá mál endurupptekin að ákveðnum tíma liðnum vegna þess að barn aðlagast alveg jafnmikið samfélaginu á 12 mánuðum hver sem ástæðan er fyrir því að þessir 12 mánuðir líða. Það er annað ákvæði í lögunum sem snýst um að eyðileggja þessa fresti en við skulum fara út í það síðar. Ég er enn að einbeita mér að þessu afnámi réttar til þess að sækja um endurupptöku.

Þessi tillaga sýnir að mínu mati svo glöggt hvað þetta frumvarp er, ég ætla að leyfa mér að sletta aðeins hérna, afsakaðu forseti, reaktíft. Það er engin heildarhugsun. Það er engin framsýni í þessum tillögum. Þetta snýst ekki um að straumlínulaga eitt eða neitt. Þetta snýst um að bregðast við ástandi sem er síðan bara búið, fyrir utan að þetta eru fullkomlega röng viðbrögð við ástandinu. Eðlilegast hefði verið að taka þessi mál til efnismeðferðar. Þetta eru nokkrir tugir einstaklinga sem dvöldu í langan tíma út af Covid. Þó að þeir hafi neitað í tvær mínútur að taka eitthvert Covid-próf þá var það ekki ástæðan fyrir töfunum.

Nú er ég bara búin með tímann minn. Ég legg til að þessi ræðutími verði endurskoðaður. Ég verð að biðja hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.