Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:46]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegi forseti. Í þetta skipti langar mig að fara aðeins yfir aðra ástæðu fyrir því að ég er hér að taka þátt í þessum umræðum og taka þetta frumvarp alvarlega, mjög alvarlega, en það er stefna flokksins míns, Pírata. Það er nefnilega þannig, eins og ég hef komið inn á í fyrri ræðum, að ein rót vandans er stefnuleysi. Þetta eru ólíkir flokkar með mjög ólíka stefnu í þessum málum og oft mjög óljósa að auki. Það er nefnilega oft lenska í stefnumótun hjá stjórnmálaflokkum að hún snýst kannski stundum meira um að líta vel út og hljóma vel svo að hægt sé að nýta stefnuna í baráttuskyni í kringum kosningar frekar en að hún snúist um að bora sig ofan í það með áþreifanlegum hætti hvað eigi að gera. Þegar þetta fer allt saman, mjög mismunandi stefna ólíkra flokka og síðan óljós stefna, ólík og óljós stefna, leiðir það til þess að úr verður eðli málsins samkvæmt óljós stefna og ónákvæm. Þá verður gjarnan eitthvað sem flýtur upp á toppinn einhvers staðar ráðandi í umræðunni, í þessu tilfelli einhver óskalisti innan úr kerfinu þar sem hlutirnir geta verið þægilegir þar sem verið er að skoða mjög þröngt sjónarhorn. Það er þá allt í einu orðið að einhverju sem ríkisstjórnin vill leggja áherslu á af því að hún getur ekki komið sér saman um neitt annað.

Ég tek það mjög alvarlega að horfa til stefnu Pírata þegar ég legg mat á hvort ég eigi að samþykkja eða styðja mál. Nú er það náttúrlega þannig að stjórnarskránni segir í 48. gr., með leyfi forseta:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Eitt af því sem heillaði mig við Pírata var málflutningur á borð við þann sem fyrrum þingmaður, Helgi Hrafn Gunnarsson, hélt uppi um sína sýn á þessi mál líkt og mörg önnur. Um þetta sagði hann að það væri sannfæring hans að hans skoðun ætti ekki alltaf að ráða heldur ætti hann stundum bara að hlusta á aðra og fara eftir þeirra ráðleggingum eða eftir annarri stefnu, frekar en einhverju sem hann vill trana fram. Þetta fannst mér vel orðað og þetta dýpkaði svolítið skilning minn á því hvernig ég lít á fulltrúalýðræðið. Eftir þessu hef ég unnið, út frá því að sannfæring er ekki sama og skoðun, sannfæring er bara það eftir hverju maður vill fara og hvaða gildum maður fer eftir og vinnur eftir. Sannfæringin getur allt eins verið einhvers konar afstaða gagnvart því að hve miklu leyti manns eigin skoðun eigi að ráða og að hve miklu leyti skoðanir annarra eigi að ráða og hve mikið lögmæti maður leggur í stefnu flokks sem maður er í. Það er reyndar mjög ánægjulegt að í þessum málaflokki og í mörgum öðrum skarast mínar skoðanir mjög mikið við formlegu stefnuna.

Út af takmörkuðum tíma sýnist mér að þetta hafi meira verið inngangur að umfjöllun um stefnu Pírata í málaflokknum en raunveruleg efnisleg umfjöllun. Ég ætla því að nýta næstu ræðu mína í að fjalla betur um stefnuna sjálfa og samanburð við þetta frumvarp. Ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.