Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:31]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegur forseti. Ég hjó eftir áhugaverðum fregnum, upplýsingum úr hv. allsherjar- og menntamálanefnd, sem hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir flutti okkur um hvernig hennar upplifun af starfinu þar hefði verið. Mér finnst sú upplifun hennar vera í miklu samræmi við það hvernig málið kom út úr nefndinni. Það að ekki hafi miklu verið breytt er í góðu samræmi við að umræður hafi verið takmarkaðar. Að sjálfsögðu gefur þetta enn meira tilefni til að stórefast um að frumvarpið sé að fara að breytast eitthvað eftir þessa umræðu í meðförum nefndarinnar. Þetta gefur enn og aftur tilefni til að hvetja fleiri þingmenn, og þá þingmenn sem sitja í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, til að lýsa upplifun sinni af umræðunni og bera þetta kannski af sér ef það er röng upplifun að umræður hafi verið svona litlar. Það er að sjálfsögðu öllum velkomið, vettvangurinn er opinn. Það er reyndar pínulítið ósamræmi milli þess að ætla að umræður hafi verið ítarlegar í nefndinni en halda því síðan fram að gerðar verði miklar breytingar á þessu máli í næstu umferð í nefndinni, ekki nema ætlunin sé að taka þetta í tveimur áföngum, fyrst rosalega góð vinna og svo aftur rosalega góð vinna. En fyrir utan það þá ber málið það ekki með sér efnislega að vinnan hafi verið ítarleg hingað til.

Þetta var mikilvægur útúrdúr í ljósi þessara upplýsinga. Ég held að mér gefist tími til að klára það sem ég var byrjaður á, þ.e. yfirferð yfir stefnu Pírata í samanburði við frumvarpið. Undir lið 2.6, sem fjallar um stefnuna um flóttamenn og flóttafólk, segir, með leyfi forseta:

„Ákvörðun um frestun réttaráhrifa skal tekin af dómara en ekki kærunefnd útlendingamála. Í öllum tilvikum skal skilgreina málsmeðferðartíma frá upphafi umsóknar og fram að því að einstaklingur er fluttur úr landi.“

Ég myndi ekki segja að frumvarpið sé í samræmi við þetta. Því er ekkert breytt hver tekur ákvörðun um frestun réttaráhrifa. Það er heldur ekki verið að skilgreina málsmeðferðartíma með þessum hætti.

Undir lið 2.7 segir, með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnvöld skulu standa við skuldbindingar sínar á grundvelli samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali og tryggja að fórnarlömbum mansals verði veittur viðeigandi stuðningur og hjálp.“

Það er nú þannig að þó að í umræðum hafi kannski borið á því að misneyting fólks á flótta af hálfu glæpahópa sé eitthvert atriði sem þessu frumvarpi er ætlað að taka á þá er því ekki að finna stað, hvorki í frumvarpinu né í lögskýringargögnum, að það sé sérstakt markmið með frumvarpinu. Enda er erfitt að ætla að með þessum stillingum á réttindum umsækjenda geti það einhvern veginn farið saman. Það þarf alla vega mikla hugarleikfimi til að ímynda sér að það geti farið saman með vernd gegn mansali. Það þyrfti þá frekar að fara fram með allt öðrum hætti, vera vakandi fyrir mansali og gefa umsækjendum kost á að geta upplýst um það og leita sér hjálpar en til þess þarf að byggja upp traust.