Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:36]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Þegar ég féll á tíma hér rétt áðan var ég í miðjum klíðum að ræða um breytingartillögu í frumvarpinu um breytingu á reglum útlendingalaga um kærufresti. Það er sem sagt lagt til í 2. gr. frumvarpsins að ákvarðanir Útlendingastofnunar í tiltekinni tegund mála, í málum þar sem umsóknum er í raun vísað frá, ýmist með vísan til þess að eitthvert annað ríki beri ábyrgð á meðferð málsins á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar eða að umsækjanda hafi verið veitt alþjóðleg vernd í öðru ríki. Við skulum bara vera hreinskilin og tala um Grikkland, Ungverjaland og Ítalíu. Í þessum málum, þar sem umsókn hefur verið vísað frá af hálfu Útlendingastofnunar, er lagt til að kæra verði sjálfvirk. Þetta á bara að gilda um þessa tegund mála. Almennur kærufrestur í stjórnsýslulögum eru þrír mánuðir en í útlendingalögum er hinn almenni kærufrestur 15 dagar. Það er alveg ljóst hver tilgangurinn með þessu er. Hann er sá að taka af umsækjanda þann tíma sem hann hefur til að undirbúa kæruna sína. Í framkvæmd er ekki óalgengt að umsækjendur kæri neikvæða niðurstöðu á síðasta degi en þetta á við í öllum málum. Þetta á jafnt við í málum þar sem lagt er til að kæra verði sjálfvirk og í efnismeðferðarmálum svokölluðum og öðrum málum.

Hvers vegna er algengt að umsækjendur kæri á síðasta degi? Jú, vegna þess að málsmeðferð á fyrsta stjórnsýslustigi hjá Útlendingastofnun er gjarnan svo ábótavant, rannsókn málsins, að það er ekki fyrr en á kærustigi sem umsækjanda gefst kostur á að leggja fram gögn sem Útlendingastofnun hefur jafnvel neitað að afla. Þetta er ekki óalgengt í málum af þessu tagi þegar fólk reynir að afla gagna um t.d. andlegt heilsufar eða reynir að afla annarra gagna sem varpa ljósi á sérstaklega viðkvæma stöðu viðkomandi að öðru leyti. Það er mjög algengt að Útlendingastofnun neiti beinlínis að bíða eftir slíkum gögnum. Því hafa umsækjendur gjarnan gripið til þess ráðs að nýta þennan kærufrest til gagnaöflunar. Þetta eru 15 dagar. Af 365 dögum eru 15 dagar ekki mjög margir dagar.

Með þessari tillögu er heildarmálsmeðferð, heildarafgreiðslutími mála, stytt um sjö daga. Hins vegar er þarna verið að svipta fólk 15 dögum sem það hefði til að undirbúa mál sitt. Ég fæ ekki séð að brýnt tilefni sé til að gera þessa breytingu á lögunum. Þetta er bara til þess að flækja lögin, láta ólíkar reglur gilda um ólíka tegund mála enn frekar en er nú þegar. Þetta er eitthvert, eins og ég hef sagt hér áður, klessuklúður sem á rætur sínar að rekja til einhvers konar pirrings hjá stjórnvöldum yfir því að verið sé að nýta þennan kærufrest, 15 daga kærufrestinn. Tilefnið er ekki meira en það.

Ég ætla að fá að lesa aðeins upp úr greinargerðinni um þetta ákvæði. Ég ætla bara að sleppa fyrri hlutanum, þar sem ég hef ákaflega lítinn tíma, og koma mér beint að efninu, með leyfi forseta:

„Áréttað er að stjórnsýslulög, nr. 37/1993, gilda um meðferð útlendingamála nema annað leiði af öðrum ákvæðum laga um útlendinga. Á kærunefnd útlendingamála hvílir því sérstök skylda til að sjá til þess, að eigin frumkvæði, að málsatvik séu nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Heimild kærenda til að koma að viðbótargögnum takmarkast því ekki við 14 daga skilafrest greinargerðar enda geta þeir lagt fram slík gögn á meðan mál er til meðferðar hjá kærunefnd. Á þeim grunni hefur kærunefnd í framkvæmd að jafnaði veitt kærendum viðbótarfrest til að skila gögnum hafi hún metið það nauðsynlegt til að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Með sjálfkrafa kæru eru að einhverju leyti lagðar auknar kröfur á stjórnvöld en í ljósi þess að mikill meiri hluti ákvarðana í málum sem þessum er nú þegar kærður má ætla að ekki verði mikil breyting á málafjölda sem ratar til kærunefndar útlendingamála. Til að mynda var kæruhlutfall verndarmála, þ.e. umsóknum frá einstaklingum sem þegar eru handhafar alþjóðlegrar verndar í öðru Evrópuríki, 95% árin 2019 og 2020 og 98% árið 2021. Þá var kæruhlutfall Dyflinnarmála 90% árið 2019, 98% árið 2020 og 96% árið 2021.“

Ég held áfram í næstu ræðu minni, ég óska eftir því að forseti bæti mér aftur á mælendaskrá.