Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eina ferðina enn ætla ég að koma hingað upp til að óska eftir þátttöku þingmanna meiri hlutans í þessari umræðu. Ég sat í hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem fjallaði um málið á því stigi þar sem umræður um einstök efnisatriði mála eiga að fara fram. Það var sannarlega orðið við þeim gestabeiðnum sem lagðar voru fram af hálfu nefndarmanna og vil ég þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir það. Hins vegar þá virðist sem það hafi ekkert rosalega mikið farið fyrir því að hlustað hafi verið á þá gesti sem komu miðað við það að meiri hlutinn skuli bara yfir höfuð ætla að reyna að keyra þetta mál í gegn þrátt fyrir allar þær alvarlegu athugasemdir sem komu fram í umræðunni þar af hálfu gesta.

Það kemur enn meira á óvart að meiri hlutinn ætli sér ekki að gera neinar breytingartillögur sem svara þeim áhyggjum sem komu fram við meðferð málsins í nefndinni. Umræðan í nefndinni var nánast engin. Það lá svo á að afgreiða þetta mál úr nefndinni, (Forseti hringir.) það voru ekki einu sinni allir gestir búnir að koma (Forseti hringir.) og ekki var búið að kanna hvort frumvarpið standist stjórnarskrá. Það er alveg ljóst að miklir annmarkar (Forseti hringir.) eru á meðferð málsins í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég kalla eftir því að það verði kallað inn í allsherjar- og menntamálanefnd þegar og hlé gert á 2. umr.,. þetta mál er ekki tilbúið.