Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:49]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég sagði hér í ræðustól fyrr í dag að við værum kannski að tala dálítið öðruvísi um þessi mál ef stríðið í Úkraínu hefði ekki átt sér stað. En mig langar að tala um annan atburð sem ég held að hafi líka haft stórvægileg áhrif á það af hverju málin eru kannski flóknari akkúrat þessa stundina en þau annars væru. Það er það sem við hér á Íslandi og um allan heim höfum þurft að eiga við undanfarin ár, heimsfaraldur Covid. Mörg þeirra mála sem eru í kerfinu núna, sem eru að komast upp í þennan 12 mánaða frest eða hafa farið fram yfir hann, eru vegna þess að við lentum í heimsfaraldri. Og það er ekki eins og sá heimsfaraldur hafi bara brotið ferli og kerfi innan hælisleitendakerfisins heldur braut hann bara öll okkar kerfi og við urðum að hugsa hlutina upp á nýtt.

Í stað þess að hugsa í lausnum þá var það því miður þannig að í dómsmálaráðuneytinu virðast menn meira hafa verið að horfa á það hvernig við gætum þrýst á það að reglurnar okkar giltu jafnvel í heimi þar sem flugsamgöngur væru t.d. ekki mögulegar. Það var bara ekkert hægt að komast á milli. Það var ekkert hægt að losa sig við fólk úr landi. Á meðan þessi heimsfaraldur var um allan heim, eins og heimsfaraldrar eru víst, þá var það fólk sem hingað hafði komið á þeim tíma að sjálfsögðu byrjað að aðlagast Íslandi. Börnin þeirra fóru að fara í skóla, þó svo að í mörgum öðrum löndum hafi skólar ekki verið opnir. Í stað þess að segja einfaldlega: Það var heimsfaraldur. Við þurfum að hugsa hlutina öðruvísi núna fyrir það fólk sem var hér á meðan heimsfaraldurinn geisaði — nei, þá er það: Hvernig getum við samt komið fólkinu úr landi? Þetta kalla ég ekki að hugsa í lausnum. Þetta kalla ég að hugsa í þvingunum og rembast eins og rjúpan við staurinn og hugsa: Jú, ég skal hafa rétt fyrir mér.

Ég spyr: Var ekki bara betra að fara í gegnum listann af fólki sem sat hér fast, veita því bara öllu hæli og losna við allar þessar umsóknir úr kerfinu? Hefði ekki verið betra — í stað þess að sitja einhvers staðar og reyna að fara í alls konar lagafimleika sem, eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir hefur bent á, flækja bara hlutina — að breyta þessu aðeins? Við þurftum að gera alls konar breytingar vegna heimsfaraldursins — við ræddum t.d. hér í morgun breytingar sem gera þurfti í ferðaþjónustu — en í stað þess að gera það í hælisleitendakerfinu þá sögðum við: Nei, þá skulum við við frekar hafa rétt fyrir okkur, alveg endalaust, alveg sama hvað gerist í heiminum í kringum okkur.