Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:15]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Við vorum að tala um kærufrest og hugmyndir frumvarpshöfunda um að hafa sjálfvirka kæru sem augljóslega er beint gegn, hvað eigum við að segja, þeirri útbreiddu háttsemi umsækjenda eða kærenda að nýta kærufrestinn til undirbúnings kæru. Stundum er það þó að einstaklingar vilja raunverulega hugsa sig um hvort þeir ætli að kæra eða ekki. En það verður ekki í boði lengur ef þetta verður að lögum. Það fer þá bara í kæru, hvort sem fólk hefur áhuga á því eða ekki. Þetta á að verða til þess að auka skilvirkni, það fækkar sem sagt málsmeðferðardögum um sjö í mesta lagi í heildina í hverju máli en fjölgar náttúrlega augljóslega þeim málum sem kærunefndin þarf að afgreiða þar sem hún mun þurfa að afgreiða öll mál, hvort sem umsækjandi var sáttur við niðurstöðuna eða ekki. Kannski var hann bara sáttur við niðurstöðuna, það gerðist í t.d. 10% Dyflinnarmála árið 2019. Í 10% Dyflinnarmála árið 2019 var fólk bara: Jæja, ókei, ég skil, ég þarf að fara til Svíþjóðar, þá bara geri ég það. Það kemur alveg fyrir, ég hef unnið í þessum bransa ansi lengi. Það er rétt sem kemur fram í greinargerð, það er tiltölulega fátítt í þessum málum vegna þess að fólk kemur hingað yfirleitt af ástæðu, en það kemur fyrir.

Þá veltir maður fyrir sér, og ég spurði reyndar um þetta við meðferð málsins í allsherjar- og menntamálanefnd: Er búið að reikna út þá lengingu eða þyngingu á málsmeðferð hjá kærunefndinni sem verður við það að þar séu afgreidd mál sem þarf ekki að afgreiða, sem viðkomandi ætlaði ekkert að kæra? Að jafnaði tekur málsmeðferð í málum af þessu tagi tvo til þrjá mánuði hjá kærunefndinni. Ég velti því fyrir mér hvort þetta muni raunverulega borga sig þegar upp er staðið. Ef við eigum bara að fara í einhverja daga og tína þá til er augljóst að þessi breytingartillaga er fullkomlega tilgangslaus. Hún er algjörlega tilgangslaus, ekkert endilega líkleg til auka neinn málshraða þegar upp er staðið og mun sannarlega ekki auka skilvirkni vegna þess að hún mun verða til þess að mál eru kærð sem umsækjandi vildi ekki einu sinni kæra.

Ef við bara tökum saman, segjum að kæruhlutfall sé 95%, eins og virðist vera svona nokkurn veginn meðaltal í þessum málum, þá er það 5%. Ef þetta eru nokkur hundruð umsóknir erum við að tala um kannski fimm, tíu, fimmtán mál, jafnvel fleiri eftir því sem umsóknum fjölgar hérna, ætli það séu ekki fleiri, 15–20 mál sem eru á borði kærunefndarinnar algjörlega að óþörfu sem kærunefndin þarf að fara í að rannsaka og skoða og skrifa úrskurð um, það tekur tvo til þrjá mánuði, í einhverjum 20 málum sem var algjör óþarfi. Þetta er eitthvað sem hefur ekki verið reiknað út, var svarið sem ég fékk. Það er ekki búið að tékka á þessu. Þegar þetta frumvarp var samið var ekki farið í að kanna hvort þetta muni raunverulega auka skilvirkni á heildina í málaflokknum.

Að mati Rauða krossins sem hefur áralanga reynslu af því að kæra, semja greinargerðir og leggja fram gögn í þessum málum er þetta ekki til bóta fyrir umsækjanda, þessi breyting, að kæran sé sjálfvirk og að það sé einhver lögbundinn 14 daga greinargerðarfrestur, það er ekki til bóta. Og ef það er heldur ekki til bóta fyrir kerfið, til hvers er þetta þá? Þetta einkennir svolítið þetta frumvarp, þetta eru einhverjar hugmyndir sem fólk fær þegar það er pirrað út af einhverju sem gerðist og því er bara skellt á einhvern tékklista sem síðan verður til frumvarp úr sem þegar upp er staðið er síðan bara eitthvert — þarf ég að segja það í hverri ræðu? — klessuklúður.

Ég ætla ekki að vera að málalengja um þetta ákvæði með kærufrestinn, það sem mér persónulega finnst kannski minnst skaðlegt af allri þessari skaðsemi sem er í þessu frumvarpi, en langar að ítreka það sem ég nefndi hérna áðan: Í almennum stjórnsýslulögum og almennt í stjórnsýslunni er kærufrestur þrír mánuðir. Það er venjulegur kærufrestur. Hann er nú þegar 15 dagar í þessum málum. Er það ekki nóg til að tryggja skilvirkni málsmeðferðar í þessum málum? Er það ekki nægur niðurskurður á möguleikum umsækjenda til að íhuga kæru og undirbúa málsmeðferð fyrir kærunefnd? Er einhver þörf á að gera breytingar af þessu tagi?