Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:06]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Að mínu mati hefur það komið mjög skýrt fram að það stendur til að beita þessu ákvæði til að fólk ákveði að fara sjálfviljugt; sjálfviljugt að því leyti til að það er húsnæðislaust, atvinnulaust, án matar, án heilbrigðisþjónustu og kannski í febrúar á Íslandi. Fólk getur valið um að deyja eða fara, það er í raun það sem eftir stendur ef ekkert húsnæði er til staðar. Mér finnst því hótun eða kúgun eða eitthvað slíkt bara alls ekkert of sterkt til orða tekið. Mér finnst það bara vera lýsing á aðstæðum. En vegna þess að hv. þingmaður fór út í skilyrði þá er einmitt svo áhugavert hvernig Rauði krossinn sýnir fram á hvað það eru ótrúlega fá og lítil skilyrði fyrir því að Útlendingastofnun geti komist að þeirri niðurstöðu að þeim finnist sanngjarnt að fólk fari til einhvers ríkis sem það hefur ekki dvalarleyfi í, hefur aldrei komið til eða hefur ekkert endilega rétt til að dvelja í á meðan kröfurnar sem eru gerðar um hvort sanngjarnt sé eða eðlilegt að fólk færi sig um set í sínu eigin ríki, þar sem það hefur þó a.m.k. dvalarleyfi, eru miklu ríkari. Þetta misræmi segir mér að það er einmitt verið að smíða þessa gildru sem ég vísaði í áðan.