Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:52]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. „Frumvarp um mannréttindabrot.“ Þetta er titill á grein sem Gunnar Hlynur Úlfarsson skrifaði á Vísi þann 9. janúar en Gunnar Hlynur er meðstjórnandi í háskóladeild Amnesty á Íslandi. Mig langar, með leyfi forseta, að drepa niður í þessari grein og fjalla um þau mannréttindabrot sem verið er að benda á:

„Í 17.–19. gr. frumvarpsins er gefin heimild til lögreglu að þvinga flóttafólk í heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn. Slíkar athafnir eru ekkert annað en brot á mannréttindum fólks og dómar um slíkt hafa m.a. fallið í Mannréttindadómstól Evrópu, sem telur að þvinguð inngrip læknis séu brot á 3. gr. sáttmálans nema hægt sé að sýna fram á læknisfræðilega nauðsyn (sjá mál Jalloh gegn Þýskalandi 2006). Ekki er hægt að ímynda sér annað en að það að þurfa að sæta læknisrannsókn gegn vilja sínum sé ákaflega niðurlægjandi upplifun. Ekki bætir það málið að heilbrigðisstarfsfólk hér á landi hefur í nógu öðru að snúast og hafa ábyggilega sjálf ekki vilja til þess að framkvæma slíkar rannsóknir að beiðni lögreglu. Umsagnir um frumvarpið frá heilbrigðisstarfsfólki hafa borist sem virðast setja sig hart upp á móti því.“

Nú ætla ég að stoppa aðeins með tilvitnunina í þessa grein og taka það saman að hér er verið að benda á það hreint og beint að það sem sé verið að leyfa með þessu frumvarpi sé eitthvað sem þegar hafi verið dæmt að sé ólöglegt samkvæmt dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Ég hreinlega spyr mig: Hafa stjórnvöld ekki verið gerð afturreka með nógu mörg mál hjá Mannréttindadómstól Evrópu? Er það eitthvert markmið hjá ríkisstjórninni að fá sem flesta dóma á móti sér? Er þetta eitthvert skorborð sem þau eru með þar sem þau eru að telja: Já, ég er kominn með fleiri dóma gegn mér en þú, herra dómsmálaráðherra? Já, ég veit það ekki. Maður bara spyr sig.

Mig langar að halda áfram að lesa upp úr þessari grein, með leyfi forseta:

„Í 5. gr. frumvarpsins er svo lagt fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd séu sviptir grunnþjónustu 30 dögum eftir birtingu framkvæmdarhæfrar ákvörðunar í máli þeirra. Það þýðir að flóttafólk fái ekki framfærslu, þak yfir höfuðið eða aðgang að heilbrigðisþjónustu, sem enn fremur skerðir mannréttindi þeirra. Eflaust er markmiðið að losna við fólkið úr landinu sem fyrst, en það ætti að vera öllum ljóst að það fer enginn sjálfviljugur til baka í aðstæðurnar sem þau flúðu til að byrja með, eða þá til Grikklands þar sem yfirvöld vilja meina að öruggt sé fyrir fólk að lifa en aðgangur að þaki yfir höfuðið, heilbrigðiskerfi og námi fyrir börnin er lítill sem enginn. Þessar breytingar munu einungis senda fólk á götuna hér á landi þar sem þau verða berskjölduð fyrir frekari misnotkun, heilbrigðiskvillum og ofbeldi.“

Já, það er ekki eins og ríkisstjórnin sé að standa sig vel í dag, t.d. þegar kemur að heimilislausum. Og nú á einfaldlega að fjölga þeim sem eru heimilislausir, fjölga þeim sem ekki hafa neina framfærslu, fjölga þeim sem ekki fá neina heilbrigðisþjónustu. Þvílík snilldaraðgerð. Það er þegar búið að benda á að það sé allt að fara fjandans til í velferðarmálum og þá á bara að auka á vandamálið. Það er lausnin hjá þessari ríkisstjórn. Kannski eru þau líka að reyna að hafa sem flesta heimilislausa. Kannski er það eitt af því sem þau eru að keppa um sín á milli í.

Frú forseti. Ég er bara rétt að byrja að tala upp úr þessari góðu grein. Ég óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá til að geta haldið áfram.