Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það erfiðasta við það hversu naumt skammtaður ræðutími er í þessari umræðu er að maður er rétt byrjaður að fjalla um eitthvað og þá klárast tíminn og maður þarf að taka upp þráðinn einhvern tímann seinna. Nú langar mig að halda áfram umfjöllun um röð fyrirspurna sem ég fékk frá hæstv. dómsmálaráðherra sem ég vék aðeins að seint í gærkvöldi. Til að rifja upp það sem fram er komið þá byrjaði þetta á því að mig langaði að fá að vita hvaða verkferlar væru í kringum framkvæmd á þvinguðum brottvísunum umsækjenda um alþjóðlega vernd, þ.e. þegar slíkir umsækjendur eru fluttir úr landi með aðstoð lögreglu eftir að umsókn þeirra hefur verið synjað, og sérstaklega hvaða þvingunarúrræðum hefði verið beitt. Þar spurði ég sérstaklega um upplýsingar um það hvort fólki hefðu verið gefin lyf gegn vilja þess í þeim tilgangi að auðvelda yfirvöldum brottvísun. Það hrópaði á mann, þegar þetta svar barst, þögnin varðandi þennan síðasta lið fyrirspurnarinnar, þögnin um það hvort lyfjafjötrum væri beitt á fólk í þágu brottvísunar, vegna þess að ráðherra eða ráðuneytið gætti sín sérstaklega á að svara þessum lið ekki.

Þetta var á 152. löggjafarþingi, 618. mál, bara svo við höldum þingskjölunum til haga. Ég fylgdi þessu eftir á sama löggjafarþingi með 707. máli þar sem ég spurði sérstaklega og eingöngu um það hvort fólki sem sótti um alþjóðlega vernd en var flutt úr landi með aðstoð lögreglu hafi verið gefin lyf gegn vilja þess í þeim tilgangi að auðvelda yfirvöldum brottvísunina. Ráðherra svarar að einstaklingum sé ekki og hafi ekki verið gefin lyf gegn vilja þess í þeim tilgangi að auðvelda yfirvöldum brottvísun. Hins vegar hafi komið upp tilvik þar sem einstaklingur hafi við handtöku verið í þannig ástandi að þótt hafi nauðsynlegt að gefa viðkomandi róandi lyf. Í framhaldinu hafi síðan brottvísun verið framkvæmd. Þannig að svarið er: Nei, fólki eru ekki gefin lyf gegn vilja sínum en jú, þau eru samt gefin. Þetta segir ráðherrann. Eitthvert undarlegasta ekki-svar sem ég hef fengið. Þetta varð til þess að ég fylgdi fyrirspurninni eftir með annarri á 153. löggjafarþingi, 253. mál, þar sem ég spurði á hvaða lagaheimild þetta byggði. Ráðherrann beitti þar trixi sem er nú ekki síðra en trixið sem hann beitti í fyrsta svarinu. Í fyrsta svarinu passaði hann sig á því að svara ekki því sem erfiðast var að svara. Í þriðja svarinu segir hann að um lagaheimildina sé best að spyrja annan ráðherra vegna þess að það sé heilbrigðisstarfsfólk sem framkvæmi þvingaða lyfjagjöf einstaklings í því skyni, eins og ráðherrann kallaði það, að tryggja öryggi hans sjálfs til þess að geta komið honum úr landi. Þess vegna væri best fyrir mig að spyrja ekki dómsmálaráðherrann sem hefur umsjón með þvinguðu brottvísunum heldur senda fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra sem virðist virka eins og einhver verktaki í þessari framkvæmd, að dæla róandi lyfjum í fólk sem fer kannski í einhvers konar panikástand þegar á að sparka því úr landi. Það veldur kannski einhverju ástandi hjá því að fílefldir starfsmenn stoðdeildar ríkislögreglustjóra mæti þeim um miðja nótt og dragi viðkomandi út af heimilinu og þá er sú leið valin að róa viðkomandi með lyfjum, hneppa viðkomandi í lyfjafjötra, eins og íslenska ríkinu er allt of tamt að gera, frekar en að beita einfaldara úrræði sem er að fjarlægja lögregluna úr jöfnunni, aðeins að slaka á með þetta offors og hætta að henda fólki úr landi með þessu valdi. Ef fólk er í panikástandi er annaðhvort hægt að fjarlægja það sem veldur panikinu (Forseti hringir.) eða gera það sem ríkið velur að gera fyrir Íslands hönd; lyfja fólk niður í panikástandinu.