Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:24]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði að fjalla aðeins meira um umsögn Kvenréttindafélags Íslands. Við vorum búin að tala um jafnréttismatið en Kvenréttindafélagið fjallar einnig um sérstaka stöðu kvenna þegar kemur að þessum málaflokki og þar segir, með leyfi forseta:

„Kvenréttindafélagið tekur undir það sem Rauði krossinn bendir á í umsögn sinni um sama mál, að afleiðingar vanrækslu Útlendingastofnunar séu alvarlegar þar sem stofnunin metur umsækjendur almennt ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölu. 3. gr. útl[endingalaga] og það þrátt fyrir að engin rannsókn á andlegu eða líkamlegu ástandi viðkomandi hafi farið fram í samræmi við 1. mgr. 25. gr. útl. Á þetta einnig við í málum þar sem um er að ræða einstaklinga sem falla beinlínis að einhverju þeirra atriða sem talin eru upp í 6. tölul. 3. gr. útl.., svo sem fórnarlömb mansals, fólk með geðraskanir og einstaklingar sem hafa orðið fyrir pyndingum, kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi og vísbendingar liggja fyrir um afleiðingar þess á viðkomandi. “

Virðulegi forseti. Það er skelfilegt að heyra að stjórnvald á Íslandi skuli ekki horfa til þessa þegar kemur að umsækjendum um hæli hér á landi, umsækjendum um alþjóðlega vernd sem eru í mjög viðkvæmri stöðu, líkt og þeirri sem er talið upp hér; mansal, geðraskanir, pyndingar, kynfæralimlestingar, nauðgun eða andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi, að það sé ekki einu sinni rannsakað, það sé ekki einu sinni tekið tillit til þess, jafnvel þó að vísbendingar liggi fyrir um það. Það að ekki sé tekið tillit til þess er hreint og beint skammarlegt og er kannski dálítið í anda þess sem við höfum því miður séð annars staðar í kerfinu þar sem þolendur ofbeldis eru ekki látnir njóta vafans og ekki stutt við þá á nægilega góðan máta. Ég ætla rétt að vona að ráðherra og starfsfólk Útlendingastofnunar taki þessa mjög alvarlegu athugasemd til greina og reyni að finna leiðir til að bæta slíkt.

En á þeim tíma sem ég hef hér allt langar mig að fjalla um eina málsgrein í viðbót úr umsögn Kvenréttindafélagsins. Sú málsgrein fjallar um sama mál en kannski aðeins seinna í ferlinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þá eru það sérstaklega konur sem eiga á hættu á t.d. mansali, kynfæralimlestingum og nauðgunum þegar þær eru sendar aftur í heimaland eða annars ríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, þá sérstaklega á þeim svæðum sem Rauði krossinn hefur bent á að séu ekki örugg móttökuríki eins og t.d. Grikkland og Ungverjaland sem íslensk stjórnvöld halda áfram að senda fólk til.“

Virðulegi forseti. Við erum að senda fólk út í mansal og út í ofbeldi.