Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:19]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég hef sagt það áður hér í þessari pontu og ég mun segja það aftur: Markmið þessa frumvarps er ekki að auka skilvirkni, ekki að straumlínulaga kerfið, ekki að bæta úr neinum annmörkum sem valda vandamálum sem við stöndum frammi fyrir. Frumvarpið snýst um að lögfesta ólögmæta framkvæmd Útlendingastofnunar. Hvað á ég við með því? Hvað þýðir það á mannamáli? Það þýðir að Útlendingastofnun hefur tekið margar vondar ákvarðanir um marga vonda hluti en verið gerð afturreka með það. Það hefur verið sagt: Nei, þetta samræmist ekki lögunum. Sem dæmi þá hefur Útlendingastofnun t.d. talið það vera töf á ábyrgð umsækjanda að framvísa fölsuðum skilríkjum en það var ekki talin vera töf á ábyrgð umsækjanda vegna þess að umsækjandi er ekkert að reyna að tefja málið með því að framvísa fölsuðum skilríkjum, hann er bara að reyna að bjarga sér. En nú á að lögfesta það, það á að gera það með þessu frumvarpi. Það að umsækjandi framvísi fölsuðum skilríkjum telst sjálfkrafa vera töf á málsmeðferð. Eitt stig fyrir Útlendingastofnun og þau eru fleiri í þessu frumvarpi.

Það sem er áhugavert að skoða í því sambandi er núverandi framkvæmd Útlendingastofnunar. Hún er nefnilega, að mínu mati og margra annarra, alls ekki í samræmi við lögin eins og þau eru. Og það er framkvæmdin sem er vandamálið, ekki lögin. Það er framkvæmdin sem skapar óskilvirkni, langan málsmeðferðartíma, miklar mannlegar hörmungar og annað hræðilegt.

Ég ætla aðeins að fjalla meira um uppáhaldsákvæðið mitt í lögum um útlendinga. Það er svo mikið uppáhalds að ég er eiginlega búin að skrifa heila fræðigrein um þetta ágæta ákvæði. Í 36. gr. núgildandi laga um útlendinga er regla sem segir almennt að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar hér á landi, hún skuli tekin til meðferðar. Svo eru undantekningar á því. Það má vísa umsókninni frá án þess að skoða hana hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki; ég ætla ekkert að vera með málalengingar þó að ákvæðið sé lengra til að flækja þetta ekki. Þetta er heimild nr. 1. Svo er heimild nr. 2 um einhverja norræna samninga sem enginn pælir í lengur enda á að fella það brott og það er allt í besta lagi. Í þriðja lagi: Ef eitthvert annað ríki í Evrópu ber ábyrgð á umsókninni á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Það er sem sagt þetta tvennt: Annað sem er kallað verndarmál; fólk sem hefur fengið vernd í öðru ríki og fólk sem er ekki komið með vernd og er að sækja um og hefur sótt um eða ef eitthvert annað ríki ber af öðrum ástæðum ábyrgð á afgreiðslu umsóknarinnar — af þessum tveimur ástæðum er hægt að vísa málinu frá. Þrátt fyrir að það sé heimilt skal málinu ekki vísað frá ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd; eða orðrétt upp úr lögunum, með leyfi forseta: „ef sérstakar ástæður mæla annars með því“. Þetta ákvæði, það að þetta eigi við um Dyflinnarmál, hefur alltaf verið í lögunum eða frá því að allt það kerfi var setti á fót. Það sem breyttist árið 2016, þegar lögin voru sett, var að þessi undantekning, þ.e. að heimilt væri að taka mál til skoðunar hér á landi, var látin ná yfir fólk sem hefði fengið vernd í öðru ríki. Fyrir árið 2016 gat fólk sem hafði fengið vernd, t.d. í Grikklandi, ekki sótt um hér, það gat ekki fengið áheyrn, það var bara ekki heimilt í lögunum. Það sem er reyndar svolítið skemmtilegt við það er að það er engin slík heimild heldur í lögum í Þýskalandi. Það er engin slík heimild, held ég, í neinu öðru Evrópuríki. Ég held að það sé það sem er verið að tala um þegar verið er að tala um íslensk sérlög. Það sem er svo fyndið við það er að önnur ríki eru samt ekki að senda fólk til Grikklands. Og á hvaða grundvelli er það? Það er ekki á grundvelli sérreglu eins og við erum með, sem er mun opnari en hjá þeim, við beitum henni strangar en þau, heldur á grundvelli banns við endursendingu fólks þangað sem líf þess eða frelsi er í hættu. Við erum að tala um grundvallarreglu í þjóðarrétti sem við teljum ekki ástæðu til að beita og við teljum ekki heldur ástæðu til að beita þessu rosalega opna sérákvæði okkar sem við beitum ekki einu sinni. Útlendingastofnun beitir þessu nánast ekkert og kærunefndin hefur því miður staðfest þá framkvæmd að mjög miklu leyti.

Ég er aftur fallin á tíma og óska eftir því við hæstv. forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.