Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Hér rétt fyrir vaktaskipti vorum við að ræða einstaklinga í umborinni dvöl sem fjallað er um í skýrslu Rauða krossins sem afhent var dómsmálaráðherra 3. nóvember og þinginu þann 30. sama mánaðar, einstaklinga sem hafa sótt um alþjóðlega vernd, fengið synjun og ekki er hægt að flytja úr landi af einhverjum ástæðum. Ég fór yfir byrjun á helstu niðurstöðum skýrslunnar, niðurstöðum sem komu út úr viðtölum við 15 af þeim 64 einstaklingum sem voru í þessari stöðu síðastliðið haust þegar Rauði krossinn framkvæmdi þessa könnun. Þar var ég búinn að tæpa á því að einstaklingar í þessari stöðu hefðu engin lagaleg réttindi, gætu ekki unnið hér á landi vegna þess að ekki væri búið að fá atvinnuleyfi fyrir fólk í þeirra stöðu og að börn þeirra byggju við ríkisfangsleysi í boði íslenskra stjórnvalda.

Það sem mig langar aðeins að nefna tengist því sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefndi hér áðan, viðkvæðinu: Ja, geta þau ekki bara sótt um atvinnuleyfi? Það er oft notað á fólk sem kemur hingað á flótta. Getur þessi hópur ekki bara fengið atvinnuleyfi einhvern veginn? Málið er nefnilega að íslenski lagaramminn er þannig að ákvæði 51. gr. útlendingalaga heimilar það bara ekki. Ákvæðið gerir kröfu um að umsókn um dvalarleyfi, og það er þá dvalarleyfi sem tengist atvinnuleyfi, sé lögð fram áður en viðkomandi kemur til landsins. Þannig að þegar þessi einstaklingur fær synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og verður innlyksa á Íslandi þá er eina leiðin til þess að fá dvalarleyfi sem leyfi viðkomandi að stunda einhverja atvinnu sú að fara frá landinu, sækja þar um og koma aftur. Svona er þetta ekkert í öllum löndum. T.d. í Svíþjóð geta umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hafa fengið lokasynjun á umsókn sinni sótt um atvinnuleyfi án þess að yfirgefa landið. Rauði krossinn bendir sérstaklega á að líta beri til þess fordæmis varðandi það að gera einhverjar breytingar á lögum hér á landi.

Það er mjög miður að allsherjar- og menntamálanefnd hafi ekki hlustað á þessar ótrúlega praktísku og góðu ábendingar Rauða krossins. Við erum jú í þessu frumvarpi og þetta er eitthvað það skásta sem er í þessu frumvarpi, sennilega eina ákvæðið sem væri ásættanlegt að gera að lögum sem snúa akkúrat að atvinnuréttindum fólks sem tengjast dvalarleyfi. Af hverju var þetta ekki látið fljóta með? Er það vegna þess að fulltrúar stjórnarflokkanna í allsherjar- og menntamálanefnd vilja halda áfram að nota þumalskrúfurnar sem eru í lögunum á fólk sem hefur fengið synjun um alþjóðlega vernd vegna þess að það eru alls konar ákvæði sem eru dálítil svona „tölvan segir nei“-ákvæði sem snúast um að fólk bara komi sér sjálft úr landi af því að ríkið getur ekki þvingað það til þess? Það að atvinnuleyfið fáist bara með því að sækja um það áður en viðkomandi kemur til landsins er eitt af þeim dæmum.

Síðan er nefnt í skýrslunni dæmi um það að fólki sem hefur fengið lokasynjun á umsókn sinni sé gefinn kostur á sjálfviljugri heimför með fjárhagslegri aðstoð. Þegar þessi valmöguleiki býðst fólki sem er að flýja landið sem því er boðin aðstoð til að komast aftur heim til, þá kemur í ljós að það er ekki raunhæfur eða raunverulegur valkostur fyrir það. Það er í þeirri stöðu að þurfa að velja á milli þess að búa við núverandi ömurlegar aðstæður á Íslandi og þess að vera sent til heimaríkisins þar sem bíður þess ofbeldi eða jafnvel dauði. Þetta eru valkostirnir sem fulltrúar stjórnarflokkanna í allsherjar- og menntamálanefnd vilja að þetta fólk standi frammi fyrir.