Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Við ræddum hér aðeins í gær mat á jafnréttisáhrifum eða öllu heldur skort á því mati í frumvarpinu. Ég leiddi það síðan inn í umræðu um hópa sem þarf að taka tillit til í jafnréttismati ef við erum að vinna út frá fjölþættri mismunun en ekki eingöngu út frá hefðbundinni kynjalinsu eins og oftast hefur verið gert, t.d. varðandi fatlaða einstaklinga og síðan hinsegin einstaklinga sem sækja hér um alþjóðlega vernd. Mig langar sérstaklega í þessari ræðu að víkja að umsögn sem barst frá Samtökunum '78 25. janúar, fyrir viku síðan, eftir að málið var afgreitt út úr allsherjar- og menntamálanefnd. Það að skila inn umsögn á þessum tímapunkti er oft ákveðið neyðaróp. Þá er verið að bregðast við því sem er nánast orðinn hlutur. Þetta er ekki bara þetta stjórnarfrumvarp heldur eru stjórnarliðar í allsherjar- og menntamálanefnd búnir að sýna hvað þau vilja sjá koma út úr frumvarpinu. Samtökin '78 benda sérstaklega á eina grein í þeim breytingum sem er 15. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að þrengja reglur um fjölskyldusameiningu við útlending sem hefur verið boðið hingað til lands af stjórnvöldum. Þetta er sem sagt fjölskyldusameining svokallaðra kvótaflóttamanna. Íslensk stjórnvöld hafa nefnilega verið dálítið kresin á það hvaða hópum er boðið til landsins sem kvótaflóttafólki. Þar hafa verið mest áberandi einstæðar mæður, oft ekkjur manna sem hafa kannski verið teknir af lífi af stjórnvöldum sem þeir voru ekki þóknanlegir og þær búa við sömu ógn og varð eiginmönnum þeirra að aldurtila og þurfa því að flýja. Þessum hópi hefur verið boðið til Íslands frá nokkrum ólíkum ríkjum.

Annar hópur sem hefur verið lögð áhersla á er hinsegin fólk sem býr enn þá við þann veruleika að fordómar eru miklum mun meiri í mörgum ríkjum heims heldur en á Íslandi. Það er 41 ríki sem beinlínis refsar fyrir hinseginleika. 41 ríki í heiminum þar sem fólk er í hættu af hálfu stjórnvalda ef það er opinberlega hinsegin. Þessu fólki hafa íslensk stjórnvöld góðu heilli boðið til landsins en ríkisstjórnin og fulltrúar stjórnarflokkanna í allsherjar- og menntamálanefnd vilja loka á fjölskyldusameiningu þessa fólks ef fjölskyldustaða þess er ekki í samræmi við það sem þau sögðu upphaflega. Þannig að ef samkynhneigður karlmaður t.d. er að flýja ofsóknir í heimaríkinu, nær að koma sér í flóttamannabúðir — þar sem er nú oft ekkert minna um fordóma og fólk getur lent í alls konar vandræðum ef upp kemst um hinseginleika þess — ef viðkomandi segir ekki: Já, og svo meðan ég man þá á ég maka í heimaríkinu sem fer enn huldu höfði sem væri mjög fínt að hafa með mér til Íslands, ef hann segir það ekki í þessu viðtali ætlar stjórnarmeirihlutinn í dag að segja að þessi maki í heimaríkinu geti bara verið þar um aldur og ævi, að þegar þessi hinsegin einstaklingur komi til Íslands sem kvótaflóttamaður þá ætli íslenska ríkið sko alls ekki að leyfa viðkomandi að njóta þess öryggis sem er hérna og átta sig á því að hann getur komið að fullu út með þá staðreynd að hann hafi verið í ástríku sambandi með t.d. öðrum karlmanni. Nei, sá karl skal bara vera áfram í landinu þar sem hann getur verið myrtur fyrir það að vera hinsegin. (Forseti hringir.) Samtökin '78 sendu neyðarkall vegna þessa. Enn eitt atriðið sem stjórnarmeirihlutinn hunsar.